Borgin getur ekki bæði misst og haldið

Reyjavíkurflugvöllur verður aldrei fjarri Reykjavík. Ella tæki höfuðborgin hlutverk sitt ekki alvarlega. Hún getur ekki bæði misst og haldið. Misst völlinn fyrir dýrmætt byggingarland, en haldið samt öllum höfuðstofnunum landsins; þeirri miklu þjónustu sem allir landsmenn eiga að geta notið með sem hröðustum, öruggustum og ódýrustum hætti. Orðið höfuðborg hefur merkingu.

Reykjavíkurflugvöllur verður aldrei Keflavíkurflugvöllur. Til þess eru mótrökin of sterk. Í fyrsta lagi þarf Keflavík nálægari varavöll en Akureyri, Egillstaði og Skotland. Í annan stað mun ekki fást undanþága frá vopnaeftirliti fyrir innanlandsflug í Keflavík. Heimaflugið myndi því lengjast um tvo tíma - og þó svo undanþága fengist, legðist af flug á flesta staði landsins.

Nýr innanlandsvöllur í Hvassahrauni er eini raunhæfi möguleikinn á flutningi þjónustunnar úr Vatnsmýri. Hann kostar upp undir 200 milljarða króna. Ef þjóðin væri spurð hvort væri mikilvægara að bæta öryggi á vegum og þjónustu í skólum og sjúkrahúsum áður en veskið væri opnað í Hvassahrauni er svarið augljóst.  Því verður Reykjavíkurflugvöllur áfram á sínum stað.