Bolvíkingar brjálaðir

„Þetta er náttúrulega bara skattur á Bolvíkinga umfram aðra landsmenn.“

Þetta segir bæjarstjóri Bolungarvíkur, Jón Páll Hreinsson, í samtali við Eyjuna. Er hann afar ósáttur við fyrirhuguð áform ríkisstjórnarinnar um að rukka veggjöld við jarðgöng á landsbyggðinni.

Líkt og bent er á, á Eyjunni er aðeins ein leið út úr Bolungarvík og það er í gegnum jarðgöng. Hefur þetta aukið samgöngur á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur frá því að göngin voru opnuð árið 2010. Eru göngin þau næst fjölförnustu á Íslandi. Bæjarráð Ísafjarðar hefur einnig gagnrýnt þessi áform, þá sérstaklega í ljósi þess að aðeins ein leið er í boði út úr bænum.

Jón segir í samtali við Eyjuna að þetta hafi hleypt illu blóði í Bolvíkinga.

„Bolvíkingar hafa enga aðra leið til að nálgast margvíslega þjónustu sem ríkið býður uppá nema að fara í gegnum göngin. Hér er ekki spítali, hér er ekki sýslumaður, enginn banki er með þjónustufulltrúa í Bolungarvík, fólk sækir verslun, afþreyingu og svo framvegis í gegnum göngin. Það er erfitt að skilja möntruna um aukna samvinnu og þvingaða sameiningu á sama tíma og verið er að skattleggja einu leiðina til samvinnu sem við höfum.“