Boða til hungurgöngu á morgun

Gulu vestin ásamt öðrum grasrótarsamtökum hafa boðað til mótmæla á Austurvelli á morgun klukkan 14:00. Í svokallaðri hungurgöngu verður því mótmælt að fólk á lægstu launum, örorkulífeyri og eftirlaunum hafi ekki nægar tekjur til að lifa út mánuðinn.

Sams konar mótmæli fóru fram fyrir um mánuði síðan.

Í lýsingu á viðburðinum á Facebook segir: „Fólk á lægstu launum, örorkulífeyri og eftirlaunum hefur ekki nægar tekjur til að lifa út mánuðinn. Þetta á við um tugþúsundir einstaklinga og fjölskyldna. Það er þjóðarskömm.“

Því er mótmælt að fólk fái ekki laun og lífeyri sem dugar því til að framfleyta sér. „Við mótmælum því að í einu af ríkustu samfélögum veraldar sé fólk dæmt til fátæktar, bjargarleysis, ótta og örvæntingar.“

Dagsetning mótmælanna, þann 23. mars, er sögð táknræn. „Á þeim degi hafa þúsundir landsmanna stigið yfir hungurmörkin, eru búin með launin sín og lífeyri í mars, eiga ekkert eftir til að framfleyta sér út mánuðinn. Láglaunafólk á leigumarkaði hefur eftir skatta, gjöld og húsnæðiskostnað aðeins efni á að framfleyta sér fram á eftirmiðdaginn 22. mars, sé miðað við markaðsverð á húsaleigu og framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara. Fyrir fulla vinnu fær það ekki laun sem duga til að halda sér á lífi út mánuðinn,“ segir einnig í lýsingunni.

Um fólk með örorku og á eftirlaunum segir: „Þau sem eru á lægsta örorkulífeyri eða eftirlaunum rétt ná fram á sunnudaginn 24. mars miðað við framfærsluviðmiðin og húsaleigu á leigumarkaði. Eftir það tekur hungurgangan við.“