Blíðviðri framundan en hvað svo?

Alger umskipti verða í veðri þegar lægðin sem skellur á okkur í dag hverfur á braut. Þá tekur loks við rólegheitaveður, hæglátt og fremur hlýtt miðað við það sem dunið hefur á landsmönnum undafarnar vikur. En blíðviðrið í kortunum er samt ekki gulltryggt.

Trausti Jónsson veðurfræðingur segir á bloggi sínu Hungurdiskar í dag að hæðin muni ná undirtökum í veðrinu hér á landi á næstunni - reyndar fari áhrifa hennar að gæta að einhverju leyti strax um helgina. \"En reiknimiðstöðvar eru samt ekki sammála um hvernig verður með hana - hvort hún kemur okkur að gagni í baráttunni við ótíðina - eða hvort hún verður bara einn ótíðarvaldurinn í viðbót. Þetta væru harla kærkomin umskipti fyrir flesta. En hvað svo? Við sjáum hér meðaltal 50 spáa - hver þeirra er með sínum hætti og sumar þeirra sýna leiðinlega galla í hæðinni - jafnvel kulda og snjókomu. Við skulum því ekki vera allt of viss,\" segir Trausti.

\"Vel má vera að hæðin haldi áfram til vesturs - og þá opnast fyrir norðanáttir - jú, Stóri-Boli er þarna - aðeins veiklaður að vísu en hrakinn, skipreika og í slæmu skapi. Vonandi finnur hann þá ekki laust sæti nærri okkur þegar hæðin er komin vestur af.\" 

Blogg Trausta.