Björn: „því miður höfum við þurft að segja upp 550 starfsmönnum“ - umdeilt og erfitt

Jón G. Hauksson ræddi við Björn Zoega, forstjóra Karólínska háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi, í þættinum Viðskipti á Hringbraut. Björn Zoega tók við starfi forstjóra á Karólínska háskólasjúkrahúsinu í Stokkhólmi í byrjun apríl á þessu ári. Björn er annar Íslendingurinn sem tekur við starfinu en Birgir Jakobsson hefur áður gegnt því.

Þegar Björn tók við starfinu þurfti hann að segja upp yfir 550 manns vegna fjárhagsörðugleika og hefur hann greint frá því að fleira starfsfólki gæti verið sagt upp.

„Þetta er auðvitað umdeilt og erfitt, alltaf þegar það þarf að skera niður þá þarf að forgangsraða. Við höfum reynt að hafa þetta þannig að við séum að hlífa því starfi sem er næst sjúklingum. Eitt af markmiðunum er til dæmis að loka ekki neinum sjúkrarúmum. Það hefur verið leiðarljós í þessu að halda uppi aðgenginu. Því miður höfum við þurft að segja upp 550 starfsmönnum sem starfa ekki nálægt sjúklingunum. Það er blanda af stjórnendum sem að starfa bara við skrifborðið og fólki sem starfar við ýmsa stoðþjónustu sem að hefur verið að gera ágætt starf en við höfum því miður ekki efni á því lengur. Svo höfum við auðvitað minnkað líka í öðrum starfsheitum hægt og sígandi, ekki með uppsögnum.“

Áhrifin koma ekki í ljós strax

Björn hefur áður lýst uppsögnunum og fjárhagserfiðleikunum við handbremsubeygju og spyr Jón hann hvort það sé ekki rétt að áhrifin af þessum ákvörðunum komi í raun ekki í ljós fyrr en eftir nokkra mánuði.

„Það er alveg rétt, megin parturinn af stóru ákvörðununum þurfa að hafa sinn tíma og þurfa að fara rétta leið í hinu opinbera kerfi. Réttindi starfsfólk og ýmislegt annað sem við þurfum að gera og breyta og það skiptir rosalega miklu máli allan tíman að hugsa alltaf sex mánuði fram í tímann. Megin parturinn af þessum aðgerðum, þó ekki allar, eru þannig að við finnum ekki áhrifin af þeim fyrr en eftir sex mánuði eða jafnvel lengur. Þannig að það gengur hægt að snúa þessu við en við vorum bara komin út í ógöngur.“

Sparnaður í heilbrigðiskerfinu kemur yfirleitt niður á sjúklingunum og því getur verið erfitt að segja mönnum að spara þar.

„Þetta er eins og í heilbrigðiskerfinu hvar sem er í heiminum, það er alltaf erfitt að spara og það er alltaf erfitt að taka ákvarðanir sem að geta bitnað á sjúklingunum. En við verðum að hugsa þetta eins og í öðrum atvinnugreinum, þó það séu ekki allir tilbúnir til þess að kalla þetta atvinnugrein að þá er það þannig að við þurfum allan tímann að finna leiðir til þess að gera hlutina hagkvæmari, til þess að gera þá ódýrari og gera þetta betur.“

Fékk stjórnendaverðlaun fyrir verk sín á Landsspítalanum

Þegar Björn var forstjóri Landspítalans fékk hann stjórnendaverðlaun fyrir verk sín þar. Það var fljótlega eftir hrun og veltir Jón því fyrir sér hvort Björn noti sömu starfshætti á Karólínska spítalanum og hann notaði á Landsspítalanum.

„Það hefur nú ekki verið neitt hrun í Svíþjóð nýlega svo það er ekki hægt að bera það saman. Hér var hrun og margt af því sem að við þurftum að gera, það var skilningur fyrir því að við þurftum að gera eitthvað svo það er ekki alveg sambærilegt. En margt af því hvernig ég vinn auðvitað maður lærði alveg hrikalega mikið af þessum tíma. Maður gerði mistök og lærði af þeim, maður sá hvað virkaði. Svo hef ég verið að reyna að finna út hvað passar í þennan kúltúr sem ég er að reyna að breyta líka. Allir vita að kúltúr tekur langan tíma að breytast. Dreifa verkefnum, gefa fólki ábyrgð. Ég get ekki ákveðið hvernig fólk vinnur á sem hagkvæmastan hátt það getur það best sjálft. Ég reyni að koma valdinu og aðallega ábyrgðinni þannig að hún verði ekki eftir í hæstu hæðum.“

Telur Björn Karólínska spítalann líklega vera með hvað bestu rannsóknirnar í Evrópu, fyrir utan Brexit.

„Það hefur gengið vel það hefur komið inn mikið af peningum síðustu ár sérstaklega og fólk er vant því að ef það komi upp vandamál að þá komi inn auka peningar en núna eru þeir peningar bara búnir. Það er erfiðara í Stokkhólmi núna heldur en oft áður.“