Björn leví: „þekkir þú sögur um spillingu, og þá sérstaklega hótanir?“ - fólk getur skráð sig nafnlaust og tilkynnt spillingu

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur sett upp heimasíðu þar sem fólk getur tilkynnt spillingu nafnlaust. Segir Björn að eftir að hafa hlustað á umræðuna sem átti sér stað í Silfrinu á RÚV, hafi hann ákveðið að setja þetta af stað. Markmiðið segir hann að sé að fá hugmynd um umfang þeirrar menningar sem var afneitað í umræðum í Silfrinu í dag.

„Þekkir þú sögur um spillingu, og þá sérstaklega hótanir? Ég ákvað, eftir Silfurþáttinn í morgun, að setja saman litla síðu þar sem hægt er að koma á framfæri sögum af hótunum og spillingu almennt. Þetta er svona í anda #metoo að vissu leyti þar sem þetta er algerlega nafnlaust. Markmiðið er að fá hugmynd um umfang þeirrar menningar sem var afneitað í Silfrinu. Hver og einn getur sent inn fleiri en eina tilkynningu. Engum upplýsingum um sendanda er safnað.“ 

Á síðunni sjálfri er fólk beðið um að segja sögu sína, en ekkert nafn þarf að setja við söguna. Þar kemur fram að spilling geti einnig birst sem hótun.

„Í kjölfar Samherjamálsins hefur komið fram ákveðið rifrildi, að það sé ekki hægt að segja að Ísland sé spillt, að gögn um athafnir eins aðila alhæfi ekkert um alla hina. Á meðan það er alveg rétt þá þekkjum við öll sögur um spillingu á Íslandi, þó sú spilling sé ekki í brúnum umslögum. Spillingin birtist líka í hótunum, en þar er sá sem hótar í nákvæmlega sömu stöðu og sá sem mútar. Staða þess sem er hótað er hins vegar ekki sú sama og þess sem er mútað, þar er munur á vilja til þátttöku í spillingunni.“