Björn Leví endurtók ummæli Þórhildar Sunnu orðrétt í pontu – Nýtur friðhelgi

Björn Leví endurtók ummæli Þórhildar Sunnu orðrétt í pontu – Nýtur friðhelgi

Á Alþingi í dag endurtók Björn Leví Gunn­ars­son, þingmaður Pírata, ná­kvæm­lega sömu setn­ingu og þá sem Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir, þingmaður Pírata, var dæmd brot­leg fyr­ir hjá siðanefnd Alþingis í síðustu viku. Í fyrra gagnrýndu þau bæði Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, fyrir akstursgreiðslur sem hann þáði frá Alþingi vegna aksturs eigin bifreiðar. Mbl.is greinir frá.

Líkt og kom fram í viðtali við Björn Leví og Helgu Völu Helgadóttur, þingmann Samfylkingarinnar, í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gær, er Björn Leví friðhelgur gagnvart siðanefndinni þar sem hann lét orðin falla í pontu á þingi, ólíkt Þórhildi Sunnu sem lét þau falla í Silfrinu á RÚV þann 25. febrúar 2018. Því virðist sem Björn Leví hafi ákveðið að láta á það reyna að segja það nákvæmlega sama og Þórhildur Sunna gerði og benda með því á hversu skökku það skjóti við.

„Ég nota nú orð sem all­ir skilja og þar á meðal siðanefnd: Nú er rök­studd­ur grun­ur um það að Ásmund­ur Friðriks­son hafi dregið að sér fé, al­manna­fé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efn­is að verið sé að setja á fót rann­sókn á þeim efn­um,“ sagði Björn Leví í ræðu sinni.

Þórhildur Sunna var ávítuð af siðanefndinni fyrir þessi sömu orð en Björn Leví var ekki talinn brjóta gegn reglum nefndarinnar þrátt fyrir að hafa, um svipað leyti og Þórhildur Sunna lét orð sín falla, sagt að um fjársvik væri að ræða hjá Ásmundi. Ásmundur kvartaði undan ummælum beggja til siðanefndar á sínum tíma.

Í ræðu sinni á Alþingi í dag bætti Björn Leví við: „Ég segi þessi orð með fullri vitn­eskju um að þau hafi verið dæmd sem brot á siðaregl­um þingmanna. Við vitum það hins veg­ar öll hérna inni, að þau eru sönn. Fyr­ir því liggur játn­ing og staðfest­ing í frá­vís­un for­sæt­is­nefnd­ar. Þess vegna er þetta rök­studd­ur grun­ur í allri merk­ingu þeirra orða. Ef við get­um gerst brot­leg við siðaregl­ur fyr­ir að segja sannleik­ann, þá er voðinn vís.“

Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, for­seti þings­ins, var ekki ánægður með framkomu Björns Leví og sagði hann fara ósæmilegum orðum um Ásmund. „For­set­inn tel­ur þessa notk­un dag­skrárliðar­ins ekki við hæfi,“ sagði Steingrímur og vísaði til dagskrárliðarins „störf þingsins,“ hvar Björn Leví tók til máls.

Nýjast