Björn hlynur leikur í netflix mynd will ferrell um eurovision: „góðar líkur á að þessi mynd geri það sama og borat gerði kasakstan“

„Ég hef stundum nefnt það að það séu góðar líkur á að þessi mynd geri það sama og myndin Borat gerði Kasakstan. Heimurinn haldi að við séum algjörir njólar.“

Þetta segir Björn Hlynur Haraldsson leikari í samtali við Fréttablaðið í dag. Björn Hlynur er á meðal þeirra sem leikur í kvikmyndinni Eurovision, sem fjallar um íslenskt kærustupar, leikið af Will Ferrell og Rachel McAdams, sem keppir í Eurovision söngvakeppninni.

Fyrstu tökudagar myndarinnar fóru fram í Lundúnum á dögunum og þar lék Björn Hlynur ásamt Hlyni Þorsteinssyni í senu með Ferrell og McAdams. „Við vorum í mjög skemmtilegri senu með þeim á mánudaginn,“ segir Björn Hlynur, sem leikur fyrrverandi kærasta persónu McAdams.

Ferrell er annar handritshöfunda, einn aðalframleiðenda myndarinnar og leikur sem fyrr segir aðalhlutverkið í myndinni, sem er framleidd fyrir Netflix streymisveituna.

Athygli hefur vakið að Ferrell hefur verið viðstaddur lokakeppni Eurovision tvö síðustu skipti, í Ísrael í ár og í Portúgal í fyrra. Þá var hann einnig viðstaddur söngvakeppnina þegar hún fór fram í Kaupmannahöfn árið 2014. Ferrell kynntist keppninni í gegnum eiginkonu sína, Vivecu Paulin, sem er sænsk leikkona.

Ótrúlega gjafmildur

Björn Hlynur ber Ferrell vel söguna. „Hann er mjög skemmtilegur og er mjög tilbúinn að dreifa athyglinni í senunni og ekki bara að taka hana til sín. Hann var ótrúlega gjafmildur í þessu fannst mér við okkur Hlynsana,“ segir hann um samstarfið við grínleikarann góðkunna.

Hlynur Þorsteinsson útskrifaðist sem leikari úr Listaháskóla Íslands á síðasta ári og er sonur leikarans og uppistandarans Þorsteins Guðmundssonar.

Samkvæmt upplýsingum á IMDb eru, auk áðurnefndra fjórmenninga, Pierce Brosnan, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Nína Dögg Filippusdóttir og Álfrún Rose á meðal leikara í myndinni. Auk þess mun Ólafur Darri Ólafsson fara með hlutverk, að því er Iceland Review greinir frá.

Skondin nöfn

Samkvæmt frétt Vulture munu persónur Ferrell og McAdams heita Lars Erickssong og Sigrit Ericksdottir. Brosnan mun leika föður Ferrell og bera nafnið Erick Erickssong. Samkvæmt frétt RÚV á dögunum eru aðstandendur myndarinnar meðvitaðir um íslenskar nafnahefðir, en ákváðu að leika sér aðeins með þær og sleppa því að láta íslenskar persónur myndarinnara bera hefðbundin íslensk nöfn. Þannig heitir persóna Jóhannes Hauks til að mynda Johans.