Björn bjarnason snýst eins og vindhani

Furðu vekur hvernig Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hefur umturnast og snúið blaðinu við í afstöðu sinni til Evrópumála. Björn hefur um árabil verið svarinn andstæðingur ESB, evru og nánast útlanda. Hann hefur lengi verið í hópi með helstu einangrunarsinnum landsins.

Undantekning frá þessu er áhugi Björns á hernaðarbrölti NATO-ríkja sem hann hefur sýnt mikin áhuga í áratugi. 

Eftir að hafa verið einn helsti talsmaður svartstakka í Sjálfstæðisflokknum og svarinn andstæðingur ESB og evru ásamt Davíð Oddssyni, Styrmi Gunnarssyni og Hannesi Hólmsteini, þá bregður nú svo við að hann snýr baki við þessum vopnabræðrum sínum og gerist ötull talsmaður þriðja orkupakkans. Hann fer þvert gegn Miðflokksarmi Sjálfstæðisflokksins og vinum sínum í Heimsýn eins og Jóni Bjarnasyni, Vigdísi Hauksdóttur, Hjörleifi Guttormssyni og Guðna Ágústssyni.

Evrópuandstæðingar segja að Björn snúist eins og vindhani á húsmæni í hávaðaroki eins og einn þeirra orðaði það.

En hvað veldur þessum pólitísku vistaskiptum Björns Bjarnasonar? Hvers vegna berst hann nú fyrir auknum tengslum okkar við ESB í gegnur þriðja orkupakkann og fer gegn sínum gömlu félögum í framlínu einangrunarsinna og Evrópuandstæðinga?

Sumir vilja skýra þetta með því að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafi sýnt klókindi og nánast “keypt” Björn yfir í lið þeirra sem mæla orkupakkanum bót. Guðlaugur skipaði Björn formann opinberrar nefndar sem tekur út reynslu okkar af EES samningnum eftir fyrstu 25 árin. Birni var mikið í mun að fá þetta hlutverk. Hann þráir athygli en var að mestu gleymdur, týndur og tröllum gefinn með ekkert hlutverk lengur.

Bent er á að rétt eftir að Guðlaugur Þór fól  Birni hið langþráða hlutverk, gerðist hann harður talsmaður þriðja orkupakkans sem Guðlaugur Þór þarf að koma í gegnum þingið. Hann snéri þá við blaðinu og hóf baráttu fyrir auknum tengslum Íslendinga við ESB. Er furða þó bent sé á þessar staðreyndir og spurt hvort hér sé um svona stórmerkilegar tilviljanir að ræða?

Björn hefur ávalt þóst vera mikill hugsjónamaður. En er það svo? Þeir sem hafa fylgst með ferli Björns Bjarnasonar í stjórnmálum segja að hann hafi einungis eina hugsjón og hún heiti BJÖRN BJARNASON. Allt annað megi víkja því hann hefur frá unga aldri verið keyrður áfram af takmarkalausum metnaði, nánast sjúklegri valdaþrá og athyglisþörf.

Hafa verður í huga að Björn er alinn upp í skugga þess stórmennis sem faðir hans var. Björn hefur reynt að feta í fótspor Bjarna Benediktssonar eldri - en aldrei komist nálægt því. Til þess hefur Björn skort gáfur, útgeislun og vinsældir.

Bjarni Benediktsson var á ferli sínum alþingismaður, formaður þingflokksins, varaformaður flokksins og formaður. Þá var hann dómsmálaráðherra, menntamálaráðherra, utanríkisráðherra og forsætisráðherra auk þess að gegna starfi borgarstjóra og aðalritstjóra Morgunblaðsins.

Björn náði einungis að gegna þingmennsku og embættum menntamálaráðherra og dómsmálaráðherra. Á Morgunblaðinu var hann aðstoðarritstjóri. Árið 2002 vildi hann verða borgarstjóri en tapaði með miklum mun. Hann leiddi þá lista Sjálfstæðisflokksins til lélegustu niðurstöðu sem þá hafði mælst. Flokkurinn hlaut 40% atkvæða og 6 menn kjörna. R-listinn vann með yfirburðum og fékk 52% atkvæða.

Pólitísk stríðsgæfa erfist ekki sjálfkrafa.