Björgunarsveitir sóttu slasaðan göngumann við hrafntinnusker

Björgunarmenn á hálendisvakt björgunarsveita í Landmannalaugum voru kallaðir út í morgun vegna slasaðs göngumanns við Hrafntinnusker sem er fyrsti skálinn á gönguleiðinni Laugavegur, milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Fyrstu upplýsingar voru á þann veg að viðkomandi væri illa brotin á hendi. Voru björgunarmenn komnir í Hrafntinnusker um 1,5 klukkustund síðar og bjuggu þá um viðkomandi til flutnings. Reyndust áverkar vera minni en fyrstu upplýsingar gáfu til kynna en þó minniháttar brot. Björgunarmenn munu flytja hana í Landmannalaugar en þaðan fer hún til byggða og til læknis.

Nokkuð mikið hefur verið um útköll vegna göngumanna á hálendisvakt björgunarsveita það sem af er sumri. Í gær fóru þeir björgunarmenn sem manna hálendisvaktina á Sprengisandi til aðstoðar manni sem var að ganga frá Nýjadal að Drekagili við Öskju. Voru þar tveir ferðalangar saman og annar ógöngufær vegna áverka á fæti. Var honum ekið í Nýjadal þaðan sem hann fór til byggða undir læknishendur. Hélt félagi hans áfram göngunni í Drekagil.