Björgólfur nýr stjórnarformaður íslandsstofu

Ný stjórn Íslandsstofu hefur verið skipuð í kjölfar breytinga á lögum um Íslandsstofu sem samþykkt voru á Alþingi síðastliðið vor. Björgólfur Jóhannsson sem nýverið sagði upp sem forstjóri Icelandair verður formaður. 

Aðrir sem skipa stjórnina eru: Hildur Árnadóttir, varaformaður, Ásthildur Otharsdóttir og Jens Garðar Helgason, öll tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins; Áshildur Bragadóttir og Borgar Þór Einarsson, bæði tilnefnd af utanríkisráðherra, og Friðjón R. Friðjónsson, tilnefndur af ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Jón Ásbergsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Íslandsstofu frá stofnun hennar árið 2010, mun að eigin ósk láta af störfum. Hann mun að beiðni stjórnar starfa áfram hjá Íslandsstofu og vera til ráðgjafar. Stjórn Íslandsstofu hefur ákveðið að staða framkvæmdastjóra verði auglýst á næstu dögum.

Hlutverk Íslandsstofu er meðal annars að vera samstarfsvettvangur atvinnulífs, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til þess að auka útflutningstekjur og hagvöxt. Enn fremur að veita alhliða þjónustu og ráðgjöf til allra útflutningsgreina í því skyni að greiða fyrir markaðssetningu og útflutningi á vöru og þjónustu og að laða erlenda ferðamenn til landsins með samræmdu kynningar- og markaðsstarfi. Þá er Íslandsstofu ætlað að laða erlenda fjárfestingu til landsins og upplýsa erlenda fjárfesta um kosti Íslands og að styðja við kynningu á íslenskri menningu, vörum og þjónustu erlendis.