Björn Ólafur sendi umdeilda tölvupóstinn: „Ekki taka þátt“ – Túlkaður sem hótun - Fékk skeyti eftir viðtal

Björn Ólafur sendi umdeilda tölvupóstinn: „Ekki taka þátt“ – Túlkaður sem hótun - Fékk skeyti eftir viðtal

Starfsmenn Reykjalundar sendu í gær frá sér yfirlýsingu vegna ástandsins á Reykjalundi. Þar sagði að samskipti við aðila, sem er tengdur stjórn SÍBS, við starfsmann sem hafði farið í viðtal við fjölmiðla mætti túlka sem hótun. Þar hörmuðu starfsmenn ástandið sem hefði skapast á staðnum eftir brottrekstur Magnúsar Ólasonar, framkvæmdastjóra lækninga, og væri það fordæmalaust. Kom brottreksturinn beint í kjölfar þess að Hringbraut greindi frá brottrekstri forstjóra Reykjalundar.

Í yfirlýsingunni segir að við brottvikningu hafi skapast óvissuástand þar sem embætti Magnúsar ber ábyrgð á faglegri þjónustu gagnvart forstjóra.

Þá sagði einnig í tilkynningunni: „Því miður gerðist það að starfsmaður Reykjalundar sem tjáði sig við fjölmiðla vegna ástandsins, fékk sendan tölvupóst frá aðila tengdum stjórn SÍBS sem túlka má sem hótun. Við slíkt er ekki unað.“

Björn Ólafur sendi póstinn

Sá sem sendi „meinta“ hótun á starfsmanninn er samkvæmt heimildum Hringbrautar Björn Ólafur Hallgrímsson lögmaður. Björn sat í stjórn SÍBS í 42 ár en hann lét af stjórnarsetu árið 2016. Dóttir Björns, Sólveig Hildur, er varaformaður stjórnar. Samkvæmt heimildum Hringbrautar tók hún þátt í ásamt Sveini formanni að vísa forstjóranum úr húsi eftir brottrekstur hans. Þótti starfsmönnum óeðlilegt að Björn Ólafur væri að senda tölvupóst á starfsmenn sem tjáðu sig við fjölmiðla.

Í skeytinu stóð að starfsmaðurinn ætti að hugsa málið vel, þá ástandið á Reykjalundi og ekki taka þátt í frekari aðgerðum.

Í tilkynningu starfsmanna sagði einnig að starfsfólki þætti miður að ástandið hefði bitnað á skjólstæðingum sem voru til meðferðar á þessum átaka tímum og valdið þeim vanlíðan.

Nýjast