Bjarni og katrín úr tengslum við fólk

Bæði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra eru augljóslega úr tengslum við fólkið í landinu, því annað virðist ekki hægt að meta af viðbrögðum þeirra við Landsbankalaunahneykslinu að þeim sé nokk sama um þá uppákomu.

Um þetta eru Björgvin G. Sigurðsson, ritstjóri Suðra og fyrrverandi ráðherra og þingmaður og Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins og Fréttatímans og fleiri miðla sammála, en þeir fara báðir mikinn í umræðunni um kjaramálin og þá undiröldu sem þeir segja vera á meðal almennings í landinu sem sé í stórum hópum að rísa upp gegn auknum ójöfnuði í landinu; það sé efnisleg innistæða fyrir róttækari verkalýðsforystu, jafnt hún og stjórnvöld hafi sofið á verðinum á síðustu árum og áratugum og leyft nýfrjálshyggjunni að eyðileggja samfélagsgerðina hér á landi.

Veggjöld, fjölmiðlafrumvarp og Víkurkirkjugarður verða einnig til umræðu í þættinum að þessu sinni sem sýndur er um miðbik fréttaþáttarins 21 sem hefst á Hringbraut í kvöld klukkan 21:00 eins og nafn hans gefur til kynna.