Bjarni ítrekar esb andstöðu sína

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ítrekaði andstöðu flokksins við Evrópusambandsaðild og upptök evru í stað krónunnar í setningarræðu landsfundar Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöllinni síðdegis.

Bjarni ræddi meðal annars stjórnarsamstarfið og sagði ríkja gott traust milli stjórnarflokkanna og mikill samstarfsvilji. Hann gerði minna úr samstarfsflokkum ríkisstjórnarinnar á undan, samstarfið þar hafi verið höktandi, og hann talaði um smáflokka sem ruggi bátnum „en detta svo bara útbyrðis í öllum gusuganginum.“

Hann sneiddi að Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formanni Viðreisnar þegar hann ræddi vantrauststillöguna á Sigríði Andersen. Hann sagðist ekki vita hvort hægt væri að segja það vonbrigði að sjá fyrrverandi samstarfsflokk og flokksfélaga greiða atkvæði með henni „þar sem það er svo sem ekki við miklu að búast úr þeirri átt.“

Fundurinn stendur fram á sunnudag og er haldinn undir kjörorðunum: Gerum lífið betra.