Bjarni ben svarar reiðilestri á facebook: „alltaf hinn fátæki jói sem á að draga að sér en ekki hinn ríki siggi?“

Fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar hefur víða verið gagnrýnt, bæði af almenningi sem og öðrum stjórnmálaflokkum. Á vef RÚV segir Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins að þurfi að endurskoða forsendur frumvarpsins þar sem gert sé ráð fyrir miklum hagvexti. Þá segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, að það sé kosningabragur á skattalækkunum.

Bjarni Benediktsson brást við frétt RÚV með því að skrifa pistil á Facebook. Í kjölfarið var hann harðlega gagnrýndur af fólki í athugasemdum undir yfirlýsingu sinni.

Ólafur Ísleifsson vildi meina að fella ætti niður samsköttun á milli hjóna og sambýlisfólks. Þá sagði Björn Leví: „Það er ákveðinn kosningabragur finnst mér alla vega á skattalækkunum.“

Bjarni Benediktsson sakaði Ólaf og Björn um staðreyndavillur. Nokkur fjöldi hefur skrifað athugasemdir við færslu Bjarna og gagnrýna að tekjulágir og öryrkjar fái ekki meira fyrir sinn snúð. Skúli Bergmann spyr: „Er þetta ekki ca:300 kall á dag. fyrir þá tekjulægstu?“

Bjarni svaraði: „Skattalækkunin er mest fyrir tekjulága 120.000 kr. á ári. Í þessum hópi eru mjög stórir hópar fólks með lágar tekjur á vinnumarkaði en einnig lífeyrisþegar.“

Einar Magnússon sagði: „Skítalykt af þessu. Lækkun skatta á kosningaári 2021. Vanhugsað.“

Bjarni svaraði: „Við viljum að fólk haldi meiru eftir af sjálfsaflafé sínu. Lágtekjufólk fær mestu lækkunina.  Staða lífeyrisþega styrkist. En það eru greinilega ekki allir á því að þetta sé eftirsóknarvert og sjá aldrei tækifæri til að lækka skattana.“

Þá sagði Anton Gunnarsson: „Það sem fer í taugarnar á mér hversu lítið er alltaf gert fyrir þá verst sóttu á sama tíma og þið planið að hækka önnur gjöld. Við eigum alltaf að vera svo rosalega sátt með að þið ætlið að vera nice og auka ráðstöfunartekjur okkar um nokkra skitna þúsundkalla á mánuði.“

Þá spurði Anton: „Við erum eitt dýrasta land í heimi á sama tíma og fjármagnstekjuskattur er lægstur hér miðað við önnur Norðurlönd. Af hverju ekki að hækka hann og skapa ríkissjóð auka tekjur sem gæti stuðlað að enn betri launahækkun á lægri tekjuhópana? Af hverju er það alltaf hinn fátæki Jói sem á að draga að sér en ekki hinn Ríki Siggi?“ Bætti Anton við að lokum:

„Hvenær koma raunhæfar lausnir ekki bara eitthvað til að stemma við komandi hækkunum.
Er orðinn alveg fáránlega þreyttur á svona plástrum og horfa á fólk í kringum mig þjást af fátækt þó það hafi unnið alla sína ævi. Þetta er bara ekki nóg sama hversu mikið þú reynir að fegra það með svona póstum.“

Bjarni svaraði: „Það sem einkennir þessar tillögur er ekki hækkun gjalda heldur stór tekjuskattslækkun. Hún gagnast best þeim sem þú vísar til, fólki sem hefur minnst milli handanna. Ýmis gjöld sem ríkið tekur eru föst krónutala. Í verðbólgu lækka slík gjöld að raungildi. Við ætlum t.d. ekki að láta slík gjöld hækka til samræmis við verðbólgu það þýðir að þau eru að raungildi að lækka.“

Rúnar Hartmannsson sakaði síðan Bjarna um blekkingar en ráðherrann lét því ósvarað.