Ríki formaðurinn og fallegu konurnar

Ragnar Önundarson, athafnamaður segir í nýjasta tilskrifi sínu að að Sjálfstæðisflokkurinn velji sér ríkasta manninn að forseta og raði svo fallegum stelpum í kringum hann.

Hann heggur því í sama knérunn og síðast þegar hann gerði athugasemd við fésbókarmynd Áslaugar Örnu Sveinbjörnsdóttur, ritara Sjálfstæðisflokksins sem hann taldi vera þar full til gálulega - og var kveðinn í kútinn með þá umdeildu lýsingu.

Nú heldur Ragnar áfram: \"Um næstu helgi velja landfundarfulltrúar Sjálfstæðisflokknum forystu. Áður var öflugasti pólitíski leiðtoginn kjörinn formaður og sá sem þótti líklegastur til að hafa burði til að taka við af honum var kjörinn varaformaður. Þeir unnu saman og styrktu hver annan. Núna er sá fjársterkasti kjörinn formaður og fallegar ungar konur valdar honum til stuðnings. Sama aðferð er höfð í Reykjavík. Formaðurinn er einvaldur sem hinir kjörnu forystumennirnir, ungu fallegu konurnar, stara aðdáunaraugum á. Það styrkir ekki forystuna. Það er sèrkennilegt að konur skuli styðja þetta fyrirkomulag.“

Ragnar er ekkert sérlega hrifinn af hinum dæmigerða landsfundarfulltrúa flokksins í Laugardalshöll: \"Landsfundarfulltrúar eru kannski upp til hópa ,,týpan” sem skoðar myndir af bresku og dönsku konungsfjölskyldunum í ,,Hello” og ,,Billedbladet”. Þeir sem fyrir utan standa horfa undrandi á og skilja ekki nauðsyn þess að hèr verði fyrirtækjaræði og elítustjórnmál. Því lengri tima sem það tekur flokksmenn að átta sig á þessu, því lengra niður fer fylgið. Nýir flokkar spretta upp eins og gorkúlur og reyna að fylla í tómarúmið. Upplausnarástandið í stjórnmálunum á sér margar rætur, þetta er ein þeirra.“