Birta líf: „sumrinu er ekki aflýst“

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að veðurblíðan hér á landi hefur verið mikil þetta sumarið. Um vestan- og sunnanvert landið hefur verið gott veður í nánast allt sumar. Í heildina hefur tíðin ekki verið jafn góð fyrir norðan og austan en þó hefur hitinn þar allnokkrum sinnum farið yfir 20 stig. Undanfarna daga hefur skyndilega kólnað mikið um allt land en veðurfræðingur Veðurstofu Íslands segir þó ekki tímabært að aflýsa sumrinu.

„Sumrinu er ekki aflýst,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við RÚV.

„Fyrir sunnan og vestan sést í sól og þrettán stiga hiti en það er ekki sumarlegt fyrir norðan og austan. Ef það nær í suðlæga átt í næstu viku gæti orðið gott úr þessu,“ bætir hún við.

Júlíus Baldursson, ritari Veðurklúbbsins á Dalvík, segir klúbbinn taka í sama streng: „Við höfum á tilfinningunni að þetta sé ekki alveg búið, þetta verður sæmilegt haust,“ segir hann í samtali við RÚV. „Síðasta spá hjá okkur sagði að það yrði kalt framan af og vætusamt, en síðan jafnvel hlýna aðeins.“