Birgittu hafnað af pírötum - segist ekki eiga afturkvæmt aftur í flokkinn

Birgitta Jónsdóttir, fyrrum þingmaður Pírata, var tilnefnd í trúnaðarráð Pírata fyrir stuttu, en var hafnað í gærkveldi á félagsfundi Pírata um málið. Mikill hiti var á fundinum og samkvæmt heimildum Hringbrautar yfirgaf Birgitta fundin mjög ósátt. Birgitta sagði í apríl á síðasta ári að hún væri hætt í flokknum. Margir þingmenn Pírata voru á fundinum.

Í viðtali við Hringbraut fyrir stuttu sagði Birgitta að hún hafi ekki vitað hver hafi tilnefnd hana en sagðist hafa hitt bæði framkvæmdaráð Pírata og framkvæmdastjórn flokksins.

„Ég var tilnefnd í eitthvað sem heitir trúnaðarráð hjá Pírötum. Þannig að ég bauðst til þess að að taka það að mér eftir að hafa hitt framkvæmdaráð Pírata.“ 

Hver tilnefnir þig í trúnaðarráð? 

„Ég bara veit það ekki,“ svarar Birgitta.  „Ég hitti framkvæmdastjórn og vildi fá upplýsingar um hvað þetta væri mikil vinna og hvaða mál stæðu út af. Þá skildist mér að ekkert hafi verið fúnkerandi síðan þessi lög voru sett sem Jón Þór bjó til. Þannig, hvort sem það er ég eða einhver annar, þá er alltaf nauðsynlegt að koma þessu á, því það eru vond að mál grassera inni í flokkum án þess að það sé tekið á þeim. Það er bara í hvaða félagsskap sem er,“ segir Birgitta.

Birgitta sagði á Facebook síðu sinni í dag að hún ætlaði ekki að tjá sig um málið við fjölmiðla. Hún birti svo ljóðið Ráðið eftir Pál J. Árdal og sagði að það mætti heimfæra yfir það sem gerðist á fundinum í gær. 

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka,
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

En biðji þig einhver að sanna þá sök,
þá segðu að til séu nægileg rök,
en náungans bresti þú helst viljir hylja,
það hljóti hver sannkristinn maður að skilja,

Og gakktu nú svona frá manni til manns,
uns mannorð er drepið og virðingin hans,
og hann er í lyginnar helgreipar seldur,
og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur,

En þegar svo allir hann elta og smá,
með ánægju getur þú dregið þig frá,
og láttu þá helst eins og verja hann viljir,
þótt vitir hans bresti og sökina skiljir.

Og segðu hann brotlegur sannlega er
en syndugir aumingja menn erum vér,
því umburðarlyndið við seka oss sæmir,
en sekt þessa vesalings faðirinn dæmir.

Svo leggðu með andakt að hjartanu hönd,
með hangandi munnvikjum varpaðu önd,
og skotraðu augum að upphimins ranni,
sem æskir þú vægðar þeim brotlega manni.

Já, hafir þú öll þessi happsælu ráð,
ég held þínum vilja þú fáir náð,
og maðurinn sýkn verði meiddur og smáður,
en máske að þú hafir kunnað þau áður.