Bingó: „mamma og pabbi redda“ - nú getum við lokað leikskólunum, lagt niður sorphirðu og lögreglu

„Á dögunum kom út skýrsla á vegum Eurostat. Hún staðfestir illan grun. Í ljós kom að á Íslandi er það fyrirkomulag algengast í Evrópu, að aðstandendur séu látnir sjá um að aðstoða fólk sem þarf umönnun. Hið opinbera, sem á að sjá um velferðarkerfið fyrir skattfé, veltir ábyrgðinni samviskulaust á fjölskyldur landsins. Um 9% uppkominna Íslendinga verja drjúgum hluta af tíma sínum í að sinna ættingjum sem þurfa umönnun. Þetta geta til dæmis verið aldraðir foreldrar, langveik börn eða fólk með fötlun. Á Norðurlöndum er þetta hlutfall að meðaltali 3%.“

Þetta segir Guðmundur Steingrímsson í pistli í Fréttablaðinu. Þar gagnrýnir hann harðlega hvernig velferðarkerfið er að bregðast og þetta sýni svart á hvítu að hér er það rekið á annan hátt en annar staðar á Norðurlöndum. Velferðarkerfið er að stórum hluta fjölskyldurekið. Aðstandendum rennur blóðið til skyldunnar. Þeir sjá um að sinna þörfinni sem hið opinbera hundsar.

Guðmundur segir að með þessum hætti sé hægt að spara enn frekara fé í ráðuneytum.

„Svona er hægt að nýta ást og kærleika nákominna til að spara fé í ráðuneytum. Excelskjöl með vaktaplönum systkina — við umönnun aldraðra foreldra — hanga á ísskápum. Eiginmanni er gefið frí einu sinni í viku við umönnun eiginkonu með Alzheimer. Á laugardögum taka börnin keflið. Móðir gefur vinnuna upp á bátinn til að sinna langveiku barni. Öldruð bakveik eiginkona kemur eiginmanni sínum á klósettið. Þrekvirki eru unnin á hverjum degi.“

Guðmundur heldur áfram:

„Nei. Aðstandendur redda. Af sjónarhóli kerfis sem er upptekið við að sóa peningum í alls konar dót eins og misheppnað íbúðabrask eða kola- og peningabrennandi stóriðju koma aðstandendur sterkir inn þegar svona mál eins og umönnun þurfandi fólks er annars vegar.“

Guðmundur spyr síðan af hverju þetta sé ekki gert á fleiri sviðum. Guðmundur segir:

„Bingó. Fyrst þessi aðferð kemur svona vel til greina í velferðarkerfinu má spyrja sig hvers vegna þetta er þá ekki gert á fleiri sviðum. Leggja mætti niður leikskólana. Mamma og pabbi redda. Til hvers að hafa lögreglu? Nágrannavakt er feykinóg. Leggja má niður sorphirðu. Fólk getur farið með tunnurnar sjálft.

Þetta yrði skilvirkt þjóðfélag eða hitt þó heldur. Allir á flandri við að redda. Fólk búið á því. Útkeyrt verður það fyrr að öryrkjum sjálft. En hvaða máli skiptir það? Það verða alltaf til ferskir aðstandendur. Það er snilldin. Þeir munu alltaf hlaupa til.“