Bílvelta á langholtsvegi - ók á kyrrstæðan bíl

 Nóg var um að vera hjá lögreglunni í nótt og stöðvaði hún átta einstaklinga sem grunaðir eru um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þá voru einnig höfð afskipti af karlmanni í Reykjavík og konu í Kópavogi vegna vörslu fíkniefna.

Lögreglan hafði afskipti af karlmanni í Skeifunni sem stóð á miðju bílastæði og kastaði af sér vatni. Var hann kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt.

Rétt fyrir klukkan tvö í nótt var lögreglunni tilkynnt um umferðaróhapp á Langholtsvegi en ökumaður bifreiðarinnar hafði ekið á kyrrstæðan bíl sem olli því að bifreið hans valt. Var ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna og var hann vistaður í fangageymslu lögreglunnar.

Klukkan þrjú í nótt hafði lögreglan afskipti af karlmanni í verslun í Reykjavík. Maðurinn var búinn að skemma vörur sem hann ætlaði ekki að kaupa.  Við afskipti lögreglu fundust ætluð fíkniefni hjá manninum.

Um tíu leitið í gærkvöldi varð svo umferðaróhapp í Hafnarfirðinum er maður ók bifhjóli á bifreið og datt í götuna. Maðurinn var að reyna að komast undan lögreglu.  Maðurinn var í kjölfarið kærður fyrir að fylgja ekki fyrirmælum lögreglu, vanrækja merkjagjöf, aka yfir gatnamót gegn rauðu ljósi, of hraðan akstur, sviptur ökuréttindum og akstur undir áhrifum fíkniefna ásamt vörslu á fíkniefnum. Ökumaður bifhjólsins kenndi eymsla eftir óhappið og var fluttur með sjúkrabifreið á Bráðadeild til aðhlynningar.

Þá var maður handtekinn í hverfi 116 grunaður um eignaspjöll og hótanir.  Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.