Bílar eru úlpur borgarbúa

„Höfuðborgarsvæðið hefur færst fjær því að standa undir nafni sem borg, hvað varðar þjónustu og mannlíf í hverfunum, sem eru mörg bara samansafn af svefnherbergjum“, skrifar Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar í grein í Fréttablaðinu í gær þar sem hann telur Borgarlínu geta verið þann samgöngumáta sem komi í stað almenningsvagnanna sem áður fyrr sameinaði borgarbúa og efldi félagsandann.

Í greininni minnist hann gömlu góðu daganna, á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar þegar fólk tók strætó saman: „Við sátum hvert með öðru, krakkar og forstjórar, fiskverkafólk og erindrekar, skósmiðir og fulltrúar, húsmæður og tannlæknar – og borgarfulltrúar“.

Guðmundur Andri skrifar ennfremur: „Almenningssamgöngur sem hafa um árabil mátt þoka fyrir sífellt aukinni notkun einkabíla, en eins og kunnugt er líta margir Íslendingar á bíla sem nokkurs konar úlpu, skrifstofu á hjólum eða vélknúinn hest sem rati sjálfur meðan bílstjórinn er í símanum, og telja það til marks um meiriháttar ósigur í lífinu að þurfa að deila rými með öðru fólki meðan farið er á milli bæjarhluta“.