Bílanaust stefnir í þrot

Bílanaust stefnir í þrot

Á starfsmannafundi í morgun var starfsfólki Bílanaust tilkynnt að fyrirtækið væri á leið í gjaldþrot. Um fimmtíu manns vinna hjá fyrirtækinu og hefur í kringum 40 starfsmönnum verið sagt upp. Þeir fá að öllum líkindum ekki greidd laun um mánaðamótin. RÚV.is og Fréttablaðið.is eru meðal þeirra sem greina frá.

Verslunum hefur verið lokað og starfsmenn voru sendir heim í kjölfar starfsmannafundarins.

Bryndís Guðnadóttir, forstöðumaður kjaramálasviðs VR, segir í samtali við Fréttablaðið að félaginu hafi verið tilkynnt um stöðuna í gær. Þá hafi VR verið boðið að vera viðstatt starfsmannafundinn í morgun, sem hún telur vera vel að verki staðið hjá fyrirtækinu. Félaginu hefði því gefist færi á að ráðleggja fólki og ræða við það. Um 35 félagsmenn í VR starfa hjá Bílanausti að sögn Bryndísar.

„Við gerum kröfu um uppsagnarfrest og þá fer málið í ákveðið ferli. Starfsmenn geta framselt kröfuna til Vinnumálastofnunar sem ábyrgðarsjóð launa kemur til með að greiða þannig að fólk fær launagreiðslu þarnæstu mánaðamót. En það er ekki hægt að framselja kröfu fyrir janúarmánuð vegna þess að hann er ekki hluti af uppsagnarfresti," segir Bryndís einnig við Fréttablaðið.

Í frétt RÚV kemur fram að Bílanaust sé rúmlega hálfrar aldar gamalt fyrirtæki, stofnað árið 1962 og hefur rekið sex verslanir með varahluti og aðrar vörur fyrir bíla. Bílanaust sameinaðist Esso undir nafninu N1 árið 2007 en var skilið frá öðrum rekstri N1 í ársbyrjun 2013 og selt. Velta fyrirtækisins dróst verulega saman á árunum 2013 til 2016 og á sama tíma juku keppinautar þess  umsvif sín. Samkvæmt ársreikningi Bílanausts fyrir árið 2016 hefði fyrirtækið ekki lengur uppfyllt ákvæði lánasamninga.

Nýjast