Beinbrotin, afskipt og pissublaut

Þingmaðurinn Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir hefur birt í bloggpistli upplýsingar um aðbúnað aldraðrar konu sem vakið hafa mikil viðbrögð.
Í pistlinum sem birtist á eyjan.is skrifar Ólína að hún hafi nýverið fengið bréf frá dóttur aldraðrar konu þar sem aðbúnaði mömmunnar var lýst síðustu æviárin.
 
\"Þegar móðir mín var 88 ára göml flutti hún að eigin ósk inn í herbergi öldrunarþjónustu. Þetta var í maí 2006 og í byrjun átti hún góða daga … Með versnandi heilsu þurfti hún á meiri þjónustu að halda en samkvæmt rituali átti hún ekki rétt á því þar sem hún var ekki í hjúkrunaraðhlynningu …

Það er svo með stóran vinnustað að ekki eru alllir hæfir til starfans. Dónaskapur sem henni var sýndur hefur gengið fram af fjölskyldu hennar. Að bíða eftir salernisaðstoð í 45 mínútur vegna þess að starfsfólk var í rapporti milli 16 og 17 var henni stundum um megn. Mestur var þó dónaskapurinn þegar starfsmaður kom, reif ofan af henni sængina og sagði: „Ertu ekki með þykkt stykki á þér?“ Með öðrum orðum: Þú getur bara pissað á þig …\"

Áfram rekur Ólína bréfið:

\"Það sem drifið hefur móður mína áfram í lífinu var að vera ekki upp á neinn komin. Því var sárt að horfa upp á hana brotna smátt og smátt saman þegar ekki var hlustað á óskir hennar og talað niður til hennar eins og hún væri smábarn. Sjálf varð ég vitni að þeirri vanvirðingu sem hún mátti þola. Sem dæmi þá var búið að koma henni á salernið kl 11 þegar hún var beðin um að láta stúlkuna fá tennurnar úr sér, á meðan önnur starfsstúlka var að troða í hana morgunlyfjunum, sitjandi á salerninu. Þarna var klukkan 11 og hún hafði ekki fengið neinn morgunmat. Eftir skamma stund kvartaði hún um að sér væri flökurt …

Ég trúði móður minni, hvernig komið væri fram við hana, því ég varð vitni að slæmri meðferð oftar en einu sinni. Svo er það með ólíkindum að sæng, koddi og rúmteppið hennar skuli hafa horfið …\"

Víkur þá sögu að sérlega átakanlegum köflum í bréfinu.

\"Eftir að móðir okkar fór í hjólastól gat hún ekki setið við það borð sem hún hafði setið við áður svo hún var færð og sneri þá baki í hurðina og sá ekki fólkið. Oft er við komum sat hún ein í borðsalnum. Spurði stundum hvort snjór væri úti því glugginn sem hún sneri að var með filmu í og útsýnið því ekkert. Svo eina ráðið sem hún hafði var að fara að gráta. Forstöðukona var búin að biðja um að hú væri ekki skilin eftir ein á salerni, það virðist hafa  gleymst og var hún skilin eftir ein. Er henni fór að leiðast stóð hún upp og datt, því hún var með buxurnar á hælunum. Við það brotnuðu tvö rifbein. Þetta gerðist á laugardegi. Á sunnudegi var hún drifin út í hjólastól og ekið með hana úti um stund. Á mánudegi var hún komin með hita og haldið að hún væri komin með lungnabólgu, svo farið var með hana í myndatöku. Kom þá í ljós að hún var rifbeinsbrotin. Eftir það var farið að dæla í hana lyfjum svo hún var út úr heiminum. Það var sama hvort maður kom fyrir hádegi, um miðjan dag eða á kvöldin, alltaf var hún í lyfjarússi. Hún var skilnin eftir úti á miðju gólfi í hjólastólnum, kunni ekki að hreyfa hann og náði ekki bjölluna sem var yfir rúminu hennar. Hurðin var lokuð og þarna sat hún grátandi, komin með ekka oftar en einu sinni og sagðist vera að missa vitið því það heyrði enginn í henni. Við fengum að heyra að hún væri ekki í hjúkrunaraðhlynningu þó að hún væri í rimlarúmi og í hjólastól. Því var ekki komið inn til hennar nema með lyf og hún færð fram í matsal á matartímum …\"

Fram kemur að aldraða konan komst að eigin ósk í hjúkrunaraðhlynningu seinustu sjö mánuðina sem hún lifði en ekki tók mikið betra við.

\"Hún vildi ekki deyja þar sem hú var og fékk pláss á öðrum stað í Reykjavík þegar þjónustumatið á henni kom. Þá var hún búin að vera í rimlarúmi og hjólastól í eitt og hálft ár.

Þvagleki er eitt af því sem hrellir fólk er árin færast yfir. Móðir mín hugsaði alltaf vel um sig en eftir að hún var komin í hjólastól var hún upp á aðra komin. Þegar ég sagði starfsfólkinu að ef hún færi að gráta þá þyrfti hún að komast á salernið, fékk ég svarið: „Við tökum fólkið á vissum tímum á salerni“. (Ég pissa ekki eftir pöntun og það gerði manma mín ekki heldur). Það hlýtur að vera ódýrara að aðstoða fólk á salerni en láta það pissa á sig, ekki eru bleyjur svo ódýrar.

Barnabarn kom til hennar að loknum fermingardegi til að færa henni köku og heyrðist þá gráturinn fram á gang. Hún lá rennandi blaut uppi í rúmi en starfsstúlka sat frammi að borða. Móður minni hafði verið færður matur inn í rúm þó að hún gæti ekki borðað þar sjálf, enda helltist maturinn yfir hana. Og þannig komum við að henni, ekki bara rúmið blautt heldur hún öll líka. Barnabarnið hennar sagði: „Ef ég verð svona gamall vil ég heldur láta skjóta mig“. Þetta var ömurleg upplifun fyrir barnið, en þegar við vorum búin að skipta á henni og hún var komin fram í borðsal var hún svo svöng og borðaði vel, en þetta var ekki kvöldmaturinn. Þarna var klukkan orðin 7 að kveldi og mín hugsun eftir á var hvort hún ætti ekkert að fá að borða af því að hún hellti matnum ofan á sig? Alla vega ekki fyrr en starfsmaðurinn var búinn að hugsa um sig og á meðan mátti hún gráta ein inni á herbergi …

Hún var látin liggja á uppblásinni dýnu svo hún fengi ekki legusár. Svo virðist loftið hafa farið úr dýnunni án þess að starfsfólkið tæki eftir því svo hún fékk slæmt legusár. Í sex vikur var verið að meðhöndla sárið og þá gafst hún upp. Þá var farið að tala um líknandi meðferð. Samt var hún sett í hjólastól hálf rænulaus, sitjandi með tennurnar út úr sér, tveim dögum áður en hún dó. Það virtust engin skilaboð vera milli starfsfólks hvernig ætti að hugsa um hana …

Hvað er að okkur Íslendingum? Við munum flest eldast og deyja, en ekkert okkar kýs það hlutskipti sem öldruðum býðst núna. Við megum skammast okkar, við búum í því velferðarþjóðfélagi sem þetta fólk skapaði okkur. Við þurfum ekki á 40 fermetra rými að halda seinustu árin, heldur góðri þjónustu og líknandi meðferð. Og hana eigum við að búa öldruðum,\" segir í niðurlagi bréfsins.

Ólína spyr að lokum í bloggfærslu sinni: \"Svo mörg voru þau orð. Ég spyr þig lesandi góður: Vilt þú að þetta bíði þín á þínu ævikvöldi?\"

Uppfært kl. 12.14: Hringbraut hefur unnið framhaldsumfjöllun síðan þessi frétt birtist þar sem rætt er m.a. við Ólínu og fleiri reynslusögur eru sagðar. Sjá hér.