Bankarnir stæðu af sér mikil áföll

Kæmi til verulegs samdráttar í útflutningsgreinum stæðu bankarnir slíkt áfall af sér, samkvæmt sviðsmynd Seðlabankans sem birt er í ritinu Fjármálastöðugleiki.

Þar segir að töluvert hafi hægst á vexti í ferðaþjónustu og hafi áhætta sem tengist henni aukist frá útgáfu Fjármálastöðugleika í vor.

Mikil hækkun olíuverðs og hörð samkeppni hafi reynt á þanþol flugfélaga hér á landi eins og annars staðar og birst í rekstrarerfileikum þeirra. Þessi þróun hafi líklega átt þátt í nokkurri veikingu krónunnar á haustmánuðum vegna endurmats á efnahagsástandi og horfum. Lægra raungengi geti á móti stutt við ferðaþjónustuna.

Áhætta í fjármálakerfinu hefur aukist en er sögð hófleg. Hægt hafi á útlánavexti stóru viðskiptabankanna til fyrirtækja í ferðaþjónustu samhliða hægari vexti í greininni. Vöxturinn hafi þó verið töluverður undanfarin ár og nema útlán til greinarinnar um tíund af lánasafni bankanna. Verði samdráttur í tekjum af ferðaþjónustu gætu orðið útlánatöp í greininni en það eitt og sér mun ekki ná að tefla stöðu bankanna í tvísýnu. 

Nánar á

https://www.frettabladid.is/markadurinn/bankarnir-staeu-af-ser-mikil-afoell