Bankapeningar í samgöngubætur

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins segir á Þjóðbraut hjá Lindu Blöndal að horft verði til fjármuna í bönkunum til að fjármagna samgönguúrbætur. Í stjórnarsáttmálanum segir m.a. „ríkisstjórnin vill hraða uppbyggingu í vegmálum og öðrum samgönguinnviðum“. Um 100 milljarða hefur vantað upp á að samgönguáætlun geti gengið eftir. Áætlunin var samþykkt í fyrrahaust.

Sigurður Ingi segir að miklar breytingar verði gerðar á samgönguáætlun og það muni koma í ljós við gerð fjárlaga nú í desember.

Enn fremur segir Sigurður Ingi að vegatollar séu ekki leið sem hann vilji fara í fjármögnun samgönguúrbóta og hafnar þeim hugmyndum sem Jón Gunnarsson, fyrrverandi samgönguráðherra varpaði fram.

Samtök atvinnulífsins sendu í dag frá sér gagnrýni á stjórnarsáttmálann sem .au telja að muni kosta 90 milljarða á ári í aukaleg útgjöld ríkisins, ef farið verði í allt sem lofað er í sáttmálanum. Þar segir: „Þá aukningu ber að meta í því ljósi að útgjöld ríkissjóðs eru nú þegar með því sem hæsta sem gerist meðal ríkja OECD, eða 40 prósent af landsframleiðslu. Það blasir því við að aldrei verður hægt að hrinda öllu því í framkvæmd sem lofað er í sáttmálanum”.

Sigurður Ingi segir að útgjöld ríkissjóðs skýrist aðallega af háum vaxtakostnaði ríkissjóðs. Einnig sé nú tími mikillar hagsveiflna og tækifæri til að fara í nauðsynlegar framkvæmdir, það verði þó ekki gert í allt í einu.