Bandarískir fjárfestar hyggjast endurreisa WOW - Fyrrum starfsmenn tengjast ekki kaupunum

Bandarískir fjárfestar hyggjast endurreisa WOW - Fyrrum starfsmenn tengjast ekki kaupunum

Þrotabú WOW air hefur selt allar eignir sínar sem tengjast flugrekstri til Bandarískra fjárfesta. Ekki er vitað hverjir séu kaupendur eignanna, en sagt er að þeir hafi áratugalanga reynslu af flugrekstri bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Markmið kaupanna er sögð vera að endurreisa lágfargjaldaflug til og frá Íslandi, bæði til Bandaríkjanna og Evrópu.

Fréttablaðið greinir frá því að eignir fyrir hundruð milljóna hafi verið keyptar úr þrotabúinu. Þar má nefna bókunarkerfi, lén Wow air, hugbúnað, tölvubúnað, flugvélavarahluti og einkennisfatnað starfsfólks. Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóra þrotabús WOW air segir í samtali við Fréttablaðið að uppsett verð hafi verið greitt fyrir allar eignir félagsins en vildi ekki gefa neinar frekari upplýsingar varðandi kaupin.

Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður, sá um milligöngu viðskiptanna á milli bandarísku fjárfestanna og þrotabúsins. Segir hann að engin tengsl séu á milli fjárfestanna og fyrrum starfsmanna eða eiganda WOW air. Greint var frá því í vikunni að fyrrum stjórnendur WOW air hugðust stofna nýtt lággjaldaflugfélag, byggt á grunni WOW air. Nýir eigendur eigna WOW air eru nú að kynna sig fyrir íslenskum yfirvöldum og mæta til fundar við Samgöngustofu á næstunni til að ræða áætlanir sínar hér á landi.

 

 

Nýjast