Ballarin stödd hér á landi – Hyggst ennþá endurreisa WOW

Ballarin stödd hér á landi – Hyggst ennþá endurreisa WOW

Bandaríska athafnakonan Michele Ballarin er stödd hér á landi. Til stendur að funda um endurreisn WOW air. Á dögunum var greint frá því að skiptastjórar þrotabús WOW air hafi rift kaupsamningi sínum við Ballarin, en hún hafði áætlað að kaupa helstu eignir þess með það fyrir augum að endurreisa eða stofna nýtt flugfélag á grunni WOW air. Ballarin hefur þrátt fyrir riftunina ekki hætt við þessar fyrirætlanir sínar.

Þetta kemur fram á Túrista, sem greinir frá því að þrátt fyrir riftun kaupsamningsins sé Ballarin ekki af baki dottin. Samkvæmt heimildum Túrista mun Ballarin funda með framáfólki í íslenskri ferðaþjónustu og viðskiptalífi í vikunni. Á meðal Íslendinga í teymi hennar eru lögmaðurinn Páll Ágúst Ólafsson og Gunnar Steinn Pálsson almannatengill.

Ballarin hefur áður lýst því yfir að hún hyggist í félagi við aðra fjárfesta setja um 12 milljarða króna í endurreisn WOW air og að fyrstu skref í því skyni munu vera að hefja flug milli Bandaríkjanna og Íslands.

Túristi greinir frá því að meðal annars sé áætlað að fljúga frá Dulles flugvelli við Washington borg í Bandaríkjunum, þar sem ætlunin sé að opna höfuðstöðvar flugfélagsins og sérstaka WOW air biðstofu. Flugmálayfirvöld í Washington kannast þó ekki við þau áform.

Nýjast