,,lést langt fyrir aldur fram: tókst á við sjúkdóm sinn af aðdáunarverðu æðruleysi. hlaupið í minningu baldvins og safna í sjóð í þágu íþrótta- og mannúðarmála

Ellefu vinir Baldvins Rúnarssonar, sem lést 31. maí sl. aðeins 25 ára gamall, hafa tekið sig saman og munu taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og safna í þágu Minningarsjóðs Baldvins. Sjóðnum er ætlað að styrkja einstaklinga, hópa og félög á sviði íþrótta- og mannúðarmála.

Baldvin, sem alla tíð var virkur í starfi Þórs á Akureyri, greindist með krabbamein 19 ára gamall og næstu sex árin tókst hann á við sjúkdóm sinn af aðdáunarverðu æðruleysi. Hann lýsti baráttu sinni í viðtali við Nútímann 12. febrúar síðastliðinn:

„Maður getur ekki verið undirbúinn fyrir svona. Þó að maður hafi kannski lent áður í einhverjum áföllum. Þá getur maður ekki vitað hvað 19 ára einstaklingur gerir þegar að hann fær svona fréttir. Ég spáði í raun aldrei í þessu, þetta gerðist bara og er bara svona,“ sagði Baldvin sem hefur þrisvar sinnum lagst á skurðarborðið og undirgengist heilaaðgerð.

„Það breyttist allt eftir að það var búið að fikta eitthvað í hausnum á manni. Ég hélt alveg áfram að sprikla en ég fann það strax eftir þetta að ég gat ekkert í fótbolta lengur. Ég myndi segja að ég væri heppinn, hvernig ég tók þessu. Ég er þakklátur og stoltur. Ég hef held ég aldrei sagt það áður, en ég er í raun rosalega stoltur af sjálfum mér.“

Í kjölfar andláts Baldvins var minningarsjóðurinn stofnaður og vinir hans ætla sannarlega að halda minningu hans á loft í Reykjavíkurmaraþoninu. Þeir hafa myndað hópinn ,,Vaktina“ og er hægt að heita á hópinn í heild eða þá einstaklinga sem hann mynda. Þeir eru:

Birgir Viktor Hannesson, Finnur Heimisson, Finnur Mar Ragnarsson, Guðmundur Oddur Eiríksson, Halldór Kristinn Harðarsson, Ingólfur Árnason, Jónas Björgvin Sigurbergsson, Örnólfur Hrafn Hrafnsson, Róbert Ingi Tómasson og Sölvi Andrason.

Hinir knáu liðsmenn Vaktarinnar settu upphaflega markið á að safna 1 milljón króna, en eru nú þegar búnir að ná því markmiði, og stefna ótrauðir á 2 milljónir. Hér má sjá síðu Vaktarinnar á heimasíðu Reykjavíkurmaraþonsins:

Einn úr hópnum, Örnólfur Hrafn, segir á Facebook-síðu sinni:

Baldvin Rúnarsson vinur minn féll frá 31.maí síðastliðinn, eftir um 5 ára baráttu við krabbamein. Baldvin var virkur í íþróttastarfi með Þór frá unga aldri en þurfti að leggja skóna á hilluna vegna veikinda. Baldvin tók sjálfur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir 3 árum og fór hann létt með hálfmaraþon þrátt fyrir veikindi sín.“

Örnólfur hafði upphaflega sett sér að safna 100.000 krónum en er floginn yfir það markmið, og stefnir nú að 200.000 kr. Síða Örnólfs í Reykjavíkurmaraþoninu má finna með því að smella hér.

Það er ljóst að minning Baldvins mun lifa um ókomin ár, enda vakti hann óskipta aðdáun allra fyrir æðruleysi sitt og baráttuþrek. Fjölskylda hans og hinn góði vinahópur munu svo sjá til þess að minningarsjóður hinnar ungu hetju láti gott af sér leiða um ókomin ár.