Baldvin er látinn: lét gott af sér leiða hvar sem hann kom að verki

Baldvin Tryggvason fæddist í Ólafsfirði 12. febrúar 1926. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 29. júlí 2019. Greint er frá andláti Baldvins í Morgunblaðinu í dag. Baldvin var í mörg ár lykilmaður í starfi Sjálfstæðisflokksins, hafði djúpstæð áhrif á listaheiminn með starfi sínu fyrir Almenna bókafélagið og Leikfélag Reykjavíkur.

Baldvin flutti til Reykjavíkur að loknu stúdentsprófi og hóf nám í lögfræði við HÍ, sem hann lauk 1953. Árið 1956 kvæntist hann Júlíu Sveinbjarnardóttur, kennara og leiðsögumanni, f. 29.8. 1931. Júlía lést 21.10. 1984 eftir áralanga baráttu við krabbamein. Árið 1992 kvæntist Baldvin eftirlifandi eiginkonu sinni, Halldóru J. Rafnar, fv. kennara og menntamálafulltrúa.

\"\"Baldvin stundaði ýmis störf fyrstu árin eftir námslok og var m.a. framkvæmdastjóri fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík 1956-1960, en það ár varð hann framkvæmdastjóri Almenna bókafélagsins.

Baldvin vann mikið og óeigingjarnt starf fyrir Sjálfstæðisflokkinn fram eftir ævi og má sem dæmi nefna að hann var stofnandi Garðars FUS í Ólafsfirði, formaður Heimdallar, formaður Fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, formaður skipulagsnefndar og miðstjórnarmaður.

Baldvin var framkvæmdastjóri Almenna bókafélagsins til ársins 1976, er hann tók við starfi sparisjóðsstjóra hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Hann lét af störfum hjá SPRON 1996. Meðfram störfum sínum hjá AB og SPRON vann hann að vexti og framgangi starfsgreinanna með ýmsum hætti, svo sem á vettvangi Félags bókaútgefenda og síðar í Sambandi íslenskra sparisjóða, norrænna sparisjóða og í stjórn European Savings Bank Group.

Baldvin var fulltrúi borgarstjóra í Leikhúsráði Leikfélags Reykjavíkur í yfir þrjátíu ár (1963-1994), formaður framkvæmdanefndar Listahátíðar í Reykjavík 1973-74 og varaformaður 1975-76.

Baldvin hlotnuðust ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín, svo sem riddarakross og stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu og heiðursfélaganafnbót hjá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur.

Sjálfum var honum líklega kærust sú viðurkenning er hann hlaut árið 1993, þegar hann var kjörinn heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur. Útför Baldvins fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 12. ágúst 2019, og hefst athöfnin klukkan 13.

Fjölmargir minnast Baldvins, bæði á samfélagsmiðlum og í Morgunblaðinu. Í þeim hópi eru m.a. Vigdís Finnbogadóttir og Styrmir Gunnarsson.

Vigdís Finnbogadóttir skrifar:

Baldvin Tryggvason var einarður liðsmaður menningar og lista. Það stýrði því góðri lukku þegar ráðamenn Reykjavíkurborgar völdu hann fulltrúa sinn í leikhúsráð Leikfélags Reykjavíkur. Það var á þeim minnisverðu árum í leiklistarsögu okkar að nærri aldargamalt rótgróið leikfélag höfuðstaðarins, sem alla tíð hafði haft aðsetur sitt í Iðnó við Tjörnina, var á sjöunda áratugi síðustu aldar orðið atvinnuleikhús og var af miklum metnaði að leggja drög að byggingu Borgarleikhúss.

Það gerðist hreint ekki af sjálfu sér en okkur þykir nú sjálfsagt að eiga eins og hverja aðra höfuðstaðarprýði. Lagt var á ráðin á löngum fundum uppi á lofti í Iðnó, glaðsinna fólk saman komið í leikhúsráðinu, með þann einlæga metnað að reka gott leikhús borgarinnar, jafnvígt Þjóðleikhúsinu og sem allra fyrst í nýju leikhúsi, Borgarleikhúsi.

Allt gekk það eftir og ekki síst fyrir liðveislu Baldvins, öndvegisvinar okkar, sem hafði svo góð sambönd við rekstrarhöfðingja borgarinnar. Aðrar listgreinar þjóðarinnar nutu einnig atorku hans og liðsinnis. Hann naut mikils trausts meðal listamanna og var um tíma, fyrir tilstilli menntamálaráðherra, formaður stjórnar listamannalauna.

Baldvin Tryggvason var heils hugar vinur íslenskrar menningar, farsæll bókaútgefandi um skeið og síðan á góðum árum gifturíkur vörslumaður hins veraldlega sem sparisjóðsstjóri í farsælum viðskiptabanka. Hann naut þeirrar lífsgæfu að láta gott af sér leiða hvar sem hann kom að verki. Ég þakka fyrir trausta og gefandi vináttu áranna og votta Halldóru, sonum þeirra og fjölskyldunni allri innilega samúð að góðum dreng gengnum.

Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins skrifar:

Baldvin Tryggvason var lykilmaður í starfi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þegar ég hóf þátttöku í starfi Heimdallar FUS haustið 1958. Hann hafði tekið við starfi framkvæmdastjóra Fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík tveimur árum áður og gegndi því fram á Viðreisnarárin þegar hann varð framkvæmdastjóri Almenna bókafélagsins sem í stjórnmálabaráttu þeirra ára hafði mikla þýðingu.

Það var mikill kraftur í starfi sjálfstæðisfélaganna í höfuðborginni á þeim árum. Í hvert sinn sem eitthvað var að gerast í pólitíkinni komu sjálfstæðismenn saman til fundar í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll þar sem forystumenn flokksins gerðu grein fyrir gangi mála. Þetta voru eftirminnilegir fundir.

Framkvæmdastjóri fulltrúaráðsins hélt utan um þetta starf allt og sá um að flokkskerfið væri í lagi og tilbúið til átaka þegar til kosninga kæmi. Þetta var á þeim árum þegar kalda stríðið mótaði allt umhverfi okkar. Við töluðum mikið saman á þeim árum, ekki sízt eftir að ég tók við formennsku í Heimdalli, og bárum saman bækur okkar um þau viðhorf sem uppi voru hverju sinni meðal flokksmanna.

Á hæðinni fyrir ofan í Valhöll við Suðurgötu starfaði Gunnar Helgason að málefnum verkalýðsfélaganna.

Hvað var Sjálfstæðisflokkurinn að gera á þeim vettvangi? Okkur lærðist það fljótt þegar við vorum kallaðir til starfa í kosningum til stjórna verkalýðsfélaganna en þar var kalda stríðið háð ekki síður en annars staðar. Þetta var eins konar gullöld Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Menningarlífið var einn af vígvöllum kalda stríðsins á Íslandi, ekki síður en verkalýðsfélögin. Þar höfðu kommúnistar sem var samheiti okkar sem yngri vorum yfir nánast alla vinstrimenn náð mjög sterkri vígstöðu með Mál og menningu í fararbroddi. Almenna bókafélagið var stofnað til að jafna þau met.

Eftir rúmlega áratugar starf hjá fulltrúaráðinu varð Baldvin framkvæmdastjóri AB. Á þeim árum skipti pólitísk reynsla máli við stjórn á bókaútgáfu. Andstæðingarnir höfðu náð miklum áhrifum meðal ungra rithöfunda og raunar annarra listamanna sem með ýmsum hætti höfðu áhrif á skoðanamyndun meðal almennra borgara. Því starfi gegndi Baldvin í tæpan áratug og hafði þá verið í tvo áratugi í fremstu víglínu stjórnmálaátaka þeirra ára.

Menn á borð við Baldvin voru eins konar grunnstoðir í starfi Sjálfstæðisflokksins. En Baldvin kom víðar við. Hann sat í stjórn Leikfélags Reykjavíkur í meira en þrjá áratugi. Ég veitti því sérstaka eftirtekt af tilfinningalegum ástæðum hvað Baldvin var annt um hag þess félags.

Það var vegna þess að föðurafi minn, Árni Eiríksson, hafði verið einn af stofnendum þess og forystumaður um skeið. Burðarásar kaldastríðsáranna í Sjálfstæðisflokknum hverfa nú óðum á braut. Baldvin var einn þeirra og annar, Ásgeir Pétursson, lést fyrir skömmu. Það var lærdómsríkt fyrir ungan mann á þeim tíma að kynnast þessum mönnum öllum. Þeir áttu þátt í farsælli vegferð ungs lýðveldis. Þessum gamla vini mínum þakka ég allt gamalt og gott.