Baldur: „þú veist hvar ég bý [...] samkvæmt lýsingu pálma gestssonar er undirritaður síbrotamaður“

„Fyrirgefið mér orðbragðið, ég er ekki vanur að taka svona til orða um fólk en nú get ég ekki lengur haldið í mér enda held ég sé komin tími til að grípa til orðbragðs sem hæfir þeim og þeir skilja: Miðflokksmenn eru hálfvitar (með kannski einni undantekningu). Og kjósendur þeirra (Miðflokksins) hálfu verri, illa innrætt og heimskt fólk svo það sé sagt. Þetta er þyngra en tárum taki en nauðsynlegt að segja það. Þeir eru stórhættulegir þjóðinni.“

Sjá einnig: Pálmi reiður: „Illa innrætt og heimskt fólk“

Þetta var haft eftir Pálma Gestssyni í frétt á Hringbraut. Var Pálmi afar ósáttur við málþóf Miðflokksmanna vegna þriðja orkupakkans. Hefur frétt Hringbrautar vakið mikla athygli. Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Miðflokksins var ósáttur við málflutning Pálma og sagði: „Mér þykir ekki fallegt af þér að tala með þessum hætti til meirihluta þjóðarinnar sem er á móti málinu sem nú er til umræðu á Alþingi. Get ekki tekið undir með þér að meirihluti þjóðarinnar sé undirmálsfólk.“ Þá bætti Þorsteinn við:

„Meirihluti þjóðarinnar deilir skoðun með okkur á þessu máli. Að okkar mati er málið hafið yfir flokkapólitík.“

Baldur Borgþórsson varaborgarfulltrúi Miðflokksins hefur nú birt yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni til að svara Pálma. Baldur býður Pálma að kíkja við í kaffi til að ræða málin í rólegheitum: Baldur segir í yfirlýsingunni:

„Undirritaður gerir hér með opinbert að hann kaus Miðflokkinn í síðustu Alþingiskosningum sem og í síðustu sveitastjórnarkosningum.

Það er ljóst að samkvæmt karakter lýsingu Pálma Gestssonar er undirritaður síbrotamaður með einbeittan brotavilja og því stórhættulegur íslensku samfélagi sem og alþjóðlegu.“

Þá segir Baldur að lokum:

„Pálmi Gestsson, þú veist hvar ég bý renni þér blóðið til skyldunnar“.