Verða bættar samgöngur til keflavíkur?

Samgöngum til Leifsstöðvar, á milli höfuðsstaðar Norðurlands og víðar frá þéttbýliskjörnum dreifbýlis, er vert að koma í betra horf að mati þeirra sem halda úti ferðaþjónustu utan Reykjavíkur. Forsvarsmenn Flugfélags Íslands kanna nú möguleikann á því að bjóða upp á flugferðir milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar yfir lengra tímabil en nú er gert. Þetta kemur fram á fréttasíðunni turisti.is.

Á sama tíma verður síðasta áætlunarferðin Gray Line langferðabíla milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar farin á morgun þar sem forsvarsmenn fyrirtækisins telja sig ekki hafa rekstrargrundvöll fyrir ferðunum lengur. Strætó bs. er til að mynda á markaðnum og nýtur betri skattaskilyrða, segja talsmenn fyrirtækisins. Strætó er í samkeppni við Gray Line sumsé. Þessi hlið ferðaþjónustunnar hefur ekki farið hátt í umræðunni hingað til.

Er náttúrulögmál að samgöngurnar séu takmarkaðar eins og nú sýnist? Er ekki best að þeir sem sjá um farþegana utan borgarinnar stilli saman strengi sína? Noti kraftana til að fylla rútur eða strætó – kannski annað hvort bara rútu eða strætó – svo þetta borgi sig. Þá fá allir far til og frá landinu á sem einfaldastan hátt.

Kannski eru þessar samgöngur dæmi um þroskaleysið sem ferðaþjónustan er enn í. Við erum enn ekki svo enn langt frá “uppgötvanastiginu”, svo vitnað sé í Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.