Aukinn systkinaafsláttur til foreldra

Fyrir áramót samþykkti Reykjavíkurborg að gerðar yrðu breytingar á systkinaafslætti gjalda fyrir leikskóla- og frístundaþjónustu með þeim hætti að barnafjölskyldur greiði aðeins námsgjald fyrir eitt barn, þvert á skólastig. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Með þessu hækkar systkinaafsláttur vegna eldri systkina úr 75 prósent í 100 prósent. Í tilkynningunni segir að það muni bæta hag barnafjölskyldna með fleiri en eitt barn á leik- og grunnskólaaldri, þar með talið hjá dagforeldrum.

Skóla- og frístundasvið hefur unnið að útfærslu þessarar ákvörðunar og leggur nú til að gerðar verði breytingar á reglum um leikskólaþjónustu, reglum um þjónustu frístundaheimila og reglum um þjónustu félagsmiðstöðva.

Breytingar á reglunum þýða að framlög verða líka aukin vegna systkina til sjálfstætt rekinna leik- og grunnskóla með samning við skóla- og frístundasvið. Þá er gert ráð fyrir að aukið framlag taki mið af gjaldskrá sviðsins auk þess sem greitt er 15 prósent álag.

Unnið er að gerð samnings við sjálfstætt rekna grunnskóla með þjónustusamning við skóla- og frístundasvið vegna reksturs frístundaheimila þeirra og er þar gert ráð fyrir að framlagið vegna frístundaheimila taki mið af auknu framlagi vegna systkina með þeim hætti að miðað verði við gjaldskrá skóla- og frístundasviðs vegna frístundaheimila borgarinnar.

Í tilkynningunni er tekið fram að þessi breyting á systkinaafslætti hafi ekki áhrif á aðra afslætti samkvæmt reglum. Þannig geta foreldrar bæði fengið 100 prósent systkinaafslátt og námsmannaafslátt. Reykjavíkurborg leggur til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um rúmlega 15 milljónir króna vegna breytinga á reglunum.