Aukin þekking gerir okkur að eftirsóknarverðu samfélagi

Aukin þekking sem fæst með betri menntun gerir okkur að eftirsóknarverðu samfélagi - og mun líka skipta höfuðmáli við að fá okkar hæfileikaríkasta fólk til að setjast hér að og efla atvinnulífið.

Á þennan veg talar Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands sem er gestur Sigmundar Ernis í fréttaþættinum 21 í kvöld, en tilefni viðtalsins er að HÍ er kominn á virtan lista yfir 500 bestu háskóla heims og þykir bera af í fögum á borð við jarðvísindi, hjúkrunarfræði og fjarkönnun.

Jón Atli metur það svo að hugarfar almennings og stjórnvalda sé að breytast mjög til mikilvægi menntunar, enda þegar orðið augljóst að Ísland verður ekki samkeppnisfært á næstu árum og áratugum nema fyrir sakir góðs orðspors á sviði menntunar, þekkingar og alþjóðlegs háskólasamstarfs.