Auðlindaákvæðið leysir ekki prinsippágreininginn

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur haldið nokkuð skynsamlega á stjórnarskrármálinu með því að gera tilraun til að áfangaskipta verkefninu. Þá hefur hún sett meiri þunga í málið með því að stýra því sjálf.

Í stjórnarskrárumræðu síðustu ára hefur komið fram sterk krafa um auðlindaákvæði. Nú hefur forsætisráðherra kynnt tillögu að sérstakri stjórnarskrárgrein um auðlindir.

Ekki verður þó séð að hún leiði til breytinga á ríkjandi ástandi og alls ekki varðandi höfuðágreiningsefnið sem er auðlindagjald í sjávarútvegi. Þar stendur hnífurinn í kúnni. VG vill ekki breytingar þar fremur en samstarfsflokkarnir.

Tillaga auðlindanefndar ekki virt

Helsti ágalli þessarar tillögu er sá að hún gerir ekki ráð fyrir að gjald komi fyrir tímabundin afnot eins og auðlindanefnd Jóhannesar Nordal lagði til á sínum tíma. Þá voru allir flokkar sammála um það prinsipp. Í dag er það viðurkennt í almennri löggjöf á ýmsum sviðum auðlindanýtingar en ekki í sjávarútvegi. Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn, Miðflokkurinn og nú einnig VG mynda óformlegt bandalag sem stendur í vegi fyrir því að þetta grundvallaratriði verði að veruleika.

Þessir fjórir flokkar hafa sammælst um það að leggja á útgerðarfélög eins konar viðbótar tekjuskatt í stað auðlindagjalds. Mismunur á tekjum og gjöldum í rekstri segir ekkert til um verðmæti veiðiréttarins sem er hinn eðlilegi stofn raunverulegs auðlindagjalds.  Þessi viðbótar tekjuskattur heitir svo ranlega veiðigjald í lögum. Það er augljóslega gert í blekkingarskyni.

Verðmæti sjávarútvegsfyrirtækja er gjarnan mun hærra en rekstrarafkoma fyrirtækjanna síðustu ár gefur til kynna. Ástæðan er sú að markaðurinn metur ótímabundinn veiðirétt miklu meir. Þess vegna var það rétt niðurstaða hjá auðlindanefnd að gjaldið ætti að koma fyrir tímabundin afnot. Tillaga hennar bar vott um framsýni og prinsipphugsun.

Á að verðlauna lélegan rekstur eða hvetja til hagkvæmni?

Viðbótartekjuskatturinn sem flokkarnir fjórir kalla veiðigjald verðlaunar óhagkvæman rekstur. Auðlindagjald sem reiknast af verðmæti veiðiréttar í tiltekinn tíma hvetur hins vegar til aukinnar hagkvæmni. Í því liggja almanna hagsmunirnir.

Aukin hagkvæmni er líka mikilvæg vegna loftslagsmálanna. VG slakar jafnvel á klónni þar í þeim tilgangi að verja sérhagsmunina.

Varðstaða flokkanna fjögurra um sérhagsmunina kemur skýrt fram í tillögu forsætisráðherra. Standi vilji til að bæta úr því væri rétt að nota hugtakið auðlindagjald í stjórnarskrártillögunni og jafnframt kveða skýrt á um að það komi fyrir afnot í tiltekinn tíma. Með öðrum orðum: Það þarf að tengja auðlindagjaldið beint við tímabundin afnot. 

Hitt er að þennan vanda má leysa í almennum lögum. Ef vilji væri til þess mætti stjórnarskrárákvæðið standa eins og forsætisráðherra leggur til. En í ljósi þess að flokkarnir fjórir standa einnig gegn því að málið verði leyst á grundvelli almanna hagsmuna í almennri löggjöf er nýja tillagan óþörf því hún breytir engu.

Vök sem reynst getur VG erfitt að verjast í

Pólitíska staða þessa auðlindaákvæðis virðist vera sú að Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Miðflokkur vilja helst ekkert gera. VG vill á hinn bóginn setja ákvæði með orðalagi sem engu breytir. Til hvers? Það er óþarfi að breyta stjórnarskrá bara til þess að kasta ryki í augu fólks. Breytingar þurfa að hafa efnislegan tilgang.

Kjarni málsins er sá að almanna hagsmuna í þessu efni verður ekki gætt nema bandalag flokkanna fjögurra verði brotið upp. Möguleikinn til þess er í kosningum eftir aðeins tvö ár. Það er stuttur tími. Þetta sýnist geta orðið sterkt sameiginlegt kosningamál þeirra flokka í stjórnarandstöðunni sem ekki tilheyra bandalagi flokkanna fjögurra. 

Fyrst forsætisráðherra vill ekki nota áhrifavald sitt til þess að fella stjórnarskrártillöguna að áliti auðlindanefndarinnar liggur beint við að draga umræðuna inn í kosningabaráttuna. Þegar þangað kemur kann skjólið  í ríkisstjórnarsamstarfinu að breytast í vök sem reynst getur VG erfitt að verjast í.