Átta handteknir – biðja íslendinga að láta vita af sér

Lögreglan hefur handtekið átta manns á Sri Lanka í tengslum við rannsókn á sprengiárásum á kirkjur og hótel en árásirnar áttu sér stað í morgun. Yfir 200 manns eru látin og hátt í 500 særð. Sprengingarnar voru sjö talsins. Þrjár í vinsælum lúxushótelum í höfuðborginni Kólombó, ein í kirkju í Kólombó, önnur í kirkju í borginni Negombo norður af höfuðborginni og ein til viðbótar í kirkju í borginni Batticaloa í austurhluta landsins.

Ranil Wickremesinghe, forsætisráðherra landsins segir að hinir handteknu og aðrir sem liggja undir grun séu allt heimamenn en einnig verið að skoða tengingar við öfgamenn í öðrum löndum. Þá hefur komið í ljós að lögreglan í landinu hafði verið gert viðvart um að hryðjuverkaárásir gætu verið yfirvofandi en forsætisráðherrann sagði að stjórnvöldum hefði ekki verið gert viðvart og því ekki hægt að koma í veg fyrir árásirnar. Lofaði forsetinn að það yrði kannað hvort lögregla hefði brugðist.

Þá hafa stjórnvöld sett á útgöngubann þar til á morgun.

Þá kemur fram á RÚV að utanríkisþjónustan hefur beðið þá Íslendinga sem staddir eru á Sri Lanka að láta aðstandendur vita af sér. Þeim sem þurfa á aðstoð að halda er bent á að hafa samband við neyðarsíma borgaraþjónustunnar, +354 545-0-112. Nokkrir Íslendingar hafa þegar látið vita að þeir séu óhultir.