Átökunum lýkur ekki á flokksþingi

Hvor sem sigrar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður eða Sigurður Ingi Jóhannsson varaformaður í formannskjöri á flokksþingi um komandi helgi, er ljóst að þar með lýkur ekki átökum innan Framsóknarflokksins. Til þess eru þau of mikil, of opinber, of sár og of reið.

Þegar hefur áhrifafólk innan flokks skipt sér í fylkingar. Í fylkingu Sigmundar Davíðs eru Lilja Dögg Alfreðsdóttur, Gunnar Bragi Sveinsson og fráfarandi þingmennirnir; Vigdís Hauksdóttir og Þorsteinn Sæmundsson.  Í fylkingu Sigurðar Inga eru Eygló Harðardóttir, Karl Garðarsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir. Svo og Guðni Ágústsson fyrrverandi formaður.

Sigri Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og hans hópur er víst að flokkurinn heldur áfram þar sem hann er nú, sem frekar hægri sinnaður flokkur.

Sigri Sigurður Ingi og Eygló verði varaformaður má gera ráð fyrir að flokkurinn færist að miðjunni, ef ekki yfir hana. Verði félagssinnaður flokkur.

Það er barist um Framsóknarflokkinn. Flest það fólk sem nú berst um flokkinn kom til liðs við hann eða í fremstu raðir hans á flokksþingi 2009. Átta árum síðar er vinátta margra á enda.

Sú fylking sem tapar mun eflaust eiga erfitt uppdráttar innan flokksins. Þau sem standa fremst í baráttunni um Framsóknarflokkinn eru í framboði fyrir hann í kosningunum í lok október. Hver sam afdrif flokksins verða í þingkosningunum og hver sem úrslit verða á flokksþingi er fyrirliggjandi að af báðum kosningum loknum setjast tvær fylkingar í þingflokk Framsóknarflokksins. Ólíkar fylkingar sem nú láta stór orð falla, hvor um aðra. Átökin halda áfram. Trúnaðarbresturinn er algjör.