Atli Rafn stefnir Borgarleikhúsinu

Atli Rafn stefnir Borgarleikhúsinu

Leikarinn Atli Rafn Sigurðarson hefur stefnt Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra Borgarleikhússins og Leikfélagi Reykjavíkur, rekstraraðila Borgarleikhússins, vegna uppsagnar hans frá leikhúsinu í tengslum við MeToo umræðuna. Atli krefst 10 milljóna króna í skaðabætur og 3 milljóna króna í miskabætur. Vísir.is greinir frá.

Atla Rafni var sagt upp störfum þann 16. desember árið 2017, stuttu fyrir fyrirhugaða frumsýningu á leikritinu Medea. Atli var á þessum tíma í ársleyfi frá Þjóðleikhúsinu til að taka að sér ýmis hlutverk á leikárinu 2017-2018 í Borgarleikhúsinu. Atli Rafn var boðaður á fund með Kristínu og Berglindi Ólafsdóttur, þáverandi framkvæmdastjóra Borgarleikhússins, þar sem honum var greint frá því að komið hefðu fram ásakanir á hendur honum um kynferðislega áreitni sem tengdust umræðu í samfélaginu sem er kennd við MeToo, og því væri honum tafarlaust sagt upp störfum.

Í stefnu Atla Rafns, sem Vísir er með undir höndum, kemur fram að Atla Rafni voru engar upplýsingar veittar um frá hverjum ásakanirnar væru komnar, af hvaða tagi þær væru, frá hve mörgum þær kæmu, frá hvaða tíma eða annað sem gæti mögulega varpað ljósi á þær og sett í samhengi fyrir hann. Einnig er í stefnunni ítrekað að Atli Rafn hafi lagt sig fram við að finna út hvað hafi valdið brottrekstrinum en að engin svör hafi verið að fá frá þeim aðilum sem nú er stefnt.

Í svari við fyrirspurn Vísis um þetta segir Kristín m.a.: „Tekið var á málinu á þann hátt sem stjórnendur Leikfélags Reykjavíkur töldu, og telja enn hafa verið, það eina rétta í stöðunni. Mun lögmaður félagsins rökstyðja þá afstöðu í greinargerð og fyrir dómi.“

Nýjast