Atli neitar að lúta höfði fyrir dauðanum: „Ef þú ætlar að vinna deyjum við bæði“

Atli neitar að lúta höfði fyrir dauðanum: „Ef þú ætlar að vinna deyjum við bæði“

Atli Eðvaldsson fyrrverandi landsliðsmaður og atvinnumaður í knattspyrnu, seinna þjálfari með félagsliðum og þjálfaði einnig íslenska landsliði opnar sig uppá gátt um veikindi sín. Það gerir Atli í páskaviðtali við Heimi Karlsson. á Bylgjunni. Læknar sögðu Atla dauðvona, hann ætti vikur, mesta lagi mánuði eftir ólifaða. Atli neitaði að fara eftir ráðleggingum lækna. Hann fann sína leið og nú þremur árum síðar er hann uppistandandi, með hnefann brosandi á lofti og neitar að gefast upp. Og enn fer hann sína leið. Lýsing Atla á veikindunum og baráttunni er áhugaverð en Atli var með krabbamein í blöðruhálskirtli og meinvörp í beinum.

„Ég fann ekki neitt. Ég var í ofsalega fínum gír,“ segir Atli í viðtalinu og heldur áfram: „Tveimur árum á undan, þetta er dálítið furðulegt, tveimur árum á undan var ég heillaður, ég fæ dellu fyrir þessum sjúkdómi og meðferðum við honum. Ég er alveg heillaður og fannst þetta áhugavert, eins og ég upplifði þetta.“ Á þessum tímapunkti hafði Atli ekki verið úrskurðaður veikur. Hann bætir við að þetta sé viðkvæmt en hann sé einungis að lýsa sinni upplifun. En svo fékk hann sjálfur sjúkdóminn sem hann hafði fengið dellu fyrir líkt og hann lýsir því. Læknar vildu láta Atla á hefðbundin krabbameinslyf.

„Ég upplifði að allt það sem var í boði í læknavísindum vestræna heimsins, það er allt sem skerðir lífsgæði verulega. Þessi lyf, þetta er ofboðslegt eitur. Ég var búinn að lesa mig til þetta, og hugsaði að ef ég fæ þennan sjúkdóm, þá ætla ég að gera þetta svona.“

Atli var því einnig búinn að ákveða hvernig hann myndi takast á við slík veikindi sem krabbamein getur verið áður en uppgötvaðist að hann væri sjálfur veikur.  En hvað gerir maður þegar slík veikindi koma upp. Atli segir:

„Ég var ofsalega rólegur, ég ákvað að ég þyrfti að fara yfir þetta. Ég fór að tala við lækni og tók enga ákvörðun núna. Ég verð að fara yfir þetta. Eins og ég sagði við lækninn:

„Ef ég er að fara í úrslitaleik í fótbolta, hann er í Heimsmeistarakeppninni eftir átta mánuði, þá vil ég reyna að byggja upp ónæmiskerfið, eins sterkt og ég get haft það. Ég þarf á því að halda, nýta það og vinna!  Ef ég ætla aftur á móti að fara hina leiðina, að veikja það og brjóta það niður, tel ég mig miðað við mína íþróttaþekkingu vera verr undir það búinn að geta tekist á við krabbameinið.“

Þá talaði Atli við sjúkdóminn.

„Ég sagði ég við krabbameinið, við erum hérna tvö. Ef þú ætlar að vinna deyjum við bæði. Við þurfum að reyna að komast að samkomulagi að finna milliveg, þannig að við höldum okkur báðum á lífi. Það sem líkaminn getur búið til getur líkaminn líka tekið til baka.“

Atli bætir við:

„Mesta sjokkið fyrir mig var, þegar þú ætlar að taka á þínum málum, að þú hefur ekkert leyfi til að taka á þínum málum. Svona mál eru kerfismál, sem þýðir, allt sem heitir hefðbundin lyf eru borguð en ef þú ætlar út í eitthvað annað, ef þú vilt ekki þessi lyf heldur önnur lyf, þá þarftu að redda því sjálfur,“ segir Atli og prufaði sig áfram með náttúrulyf. „Ef ég fer óhefðbunda aðferð er engin eftirfylgni.“ Bætir Atli við að kerfið geri ekki ráð fyrir að aðrar aðferðir séu reyndar og miðast allt við ákveðið lyfjaferli.

Heimir spurði þá Atla hvort hann væri sáttur við jafntefli, að lifa með sjúkdómnum.

„Við erum að reyna að finna jafnvægi,“ svaraði Atli. Þá bætti hann við að þegar hann fór fyrst til læknis og lét þá vita að hann ætlaði að fara sína leið hefði læknirinn tjáð honum að hann ætti eftir að koma skríðandi grenjandi á fjórum fótum vegna verkja. Þá ætti hann líklega vikur, mesta lagi mánuði ólifaða.

Allt sem heitir fjölskylda. Það brotnar allt niður við slíkar fréttir, segir Atli. „Þegar ég heyrði þegar ég var kominn með þetta langaði mig að breiða yfir haus og deyja. Ég ákvað að fara mína leið.“ Læknarnir voru ekki sáttir við þessa ákvörðun.

„Þú munt ekki lifa lengi eftir þetta. Þessi sjúkdómur mun draga þig til dauða,“ segir Atli að læknirinn hafi tilkynnt honum. Atli svaraði á móti: „Ég þarf ekki að koma til ykkar og  heyra þetta. Mig langar miklu frekar að heyra: „Hvernig hefur þú það?“ „Ég hef það æðislegt.“ Gott að heyra að þér líði vel í stað þess að heyra.“

Þá segir Atli að erfiðast hafi verið að tilkynna sínum nánustu um veikindin. Hann hafi óttast að það yrði erfitt að sannfæra fólkið sitt um að hann vildi fara þessa óvenjulegu leið. En fjölskylda og vinir virtu ákvörðunina honum til mikillar gleði. Þá sagði Atli að hann neitaði að gefast upp og bætti við undir lokin:

„Þegar maðurinn með ljáinn kemur ætla ég ekki að lúta höfði, ég ætla að fara beint í andlitið á honum.“

Nýjast