Ásmundur vísar umræðum um óeðlilegar greiðslur á bug: „stjórnendur upphafs sömdu aðra kostnaðar­áætlun innanhúss sem hefur ráðið för og virtu okkar mat að vettugi“

„Við vísum því alfarið á bug að óeðlilegar greiðslur hafi borist til okkar og skiljum ekki hvaðan sú umræða kemur. Það er rétt að við gerðum kostnaðaráætlun vegna verkefnisins á Hafnarbraut. Sú kostnaðaráætlun er raunsæ en það var ekki farið eftir henni. Stjórnendur Upphafs sömdu aðra kostnaðar­áætlun innanhúss sem hefur ráðið för og virtu okkar mat að vettugi,“ segir Ásmundur Ingvarsson, framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar Ferill.

Fréttablaðið greinir frá því að verkfræðistofan Ferill hafi unnið fyrir fasteignafélagið Upphaf við verkefni á Kársnesi og segir Ásmundur að kostnaðaráætlunin sem Ferill gerði sé í takt við framvindu verksins. Upphaf hafi hins vegar virt matið að vettugi og samið aðra kostnaðaráætlun sem farið hefur verið eftir en sú kostnaðaráætlun hafi verið verulega vanáætluð.

Greint hefur verið frá því að staða fjárfestingarsjóðanna GAMMA: Novus og GAMMA: Anglia sé ekki eins góð og gert var ráð fyrir um síðustu áramót. Þá hafi eigið fé GAMMA: Novus aðeins verið 42 milljónir króna en ekki 4,4 milljarðar.

GAMMA: Novus er eigandi Upphafs fasteignafélagsins og eftir að í ljós kom hvernig staða fyrirtækisins var hafa þeir greint frá því að verulegar eignir væru í félaginu. Þar á meðal 129 íbúðir við Hafnarbraut á Kársnesi sem verið er að byggja og áttu samkvæmt áætlun að fara í sölu í haust. Nú er orðið ljóst að svo verður ekki.

GAMMA greindi einnig frá því að kostnaður við framkvæmdirnar hafi verið vanmetnar og að raunframvinda verkefna félagsins hafi verið ofmetin. Kostnaðaráætlunin sem Verkfræðistofan Ferli gerði fyrir Upphaf var ekki höfð til hliðsjónar þegar verkefnið var kynnt fjárfestum.

„Við höfum upplýst fjárfesta sjóðanna um hver staðan er og okkar vinna er að reyna að verja virði þeirra eigna sem eru í félaginu,“ segir Máni Atlason nýráðinn framkvæmdastjóri GAMMA. Máni vildi ekki svara spurningu Fréttablaðsins um hvort fyrri stjórnendur fyrirtækisins hefðu gerst sekir um saknæmt athæfi.