Árni tryggvason rifjar upp æskuslóðir

Þáttaserían Blik úr bernsku hefur göngu sína á Hringbraut í kvöld. Þættirnir verða á dagskrá kl.21.00 á miðvikudagskvöldum og verða 20 þættir til sýningar á Hringbraut næstu vikur og mánuði.

Í fyrsta þætti Blik úr bernsku, ræðir umsjónarmaður þáttarins, Helgi Jónsson, við einn ástsælasta leikara þjóðarinnar, Árna Tryggvason. Árni ólst upp í Hrísey og segir frá foreldrum sínum og uppvexti, æskuheimilinu Brekku sem margir landsmenn þekkja nú sem veitingahús. Árni segir einnig frá jarðskjálftanum mikla árið 1934 og rifjar upp hvernig þeir félagarnir fylgdust með unga fólkinu njóta ásta úti í móa eftir ball. Árni segist hafa verið feiminn sem barn og mjög hændur móður sinni. Hann steig þó fyrst á svið sem mjög ungur drengur, en leiklistin varð síðar að hans aðalstarfi.

Handritahöfundur og þáttastjórnandi Blik úr Bernsku er Helgi Jónsson, en kvikmyndatökumaður Friðþjófur Helgason. Í hverjum þætti, er rætt við þjóðþekkta einstaklinga um æsku og bernskuslóðir.