Arnar missti sinn besta vin: „Ég leyfði mér ekki að vera sorgmæddur [...] ýtti gleðinni líka í burtu“

Arnar missti sinn besta vin: „Ég leyfði mér ekki að vera sorgmæddur [...] ýtti gleðinni líka í burtu“

„Í gær voru 16 ár síðan mamma dó eftir baráttu við krabbamein í annað sinn. Þessi dagur vekur upp mjög blendnar tilfinningar, alveg eins og afmælisdagurinn hennar, jólin, stórir dagar í mínu lífi og fleiri dagar þar sem fjölskylda og vinir eru manni efst í huga.“

Á þessum orðum hefst aðsend grein Arnars Sveins Geirssonar, knattspyrnumanns hjá Breiðabliki og markaðsfulltrúa hjá Planet, sem birtist á Vísi föstudaginn 17. maí. Arnar Sveinn missti móður sína þegar hann var aðeins 11 ára gamall og hefur á síðustu árum opnað sig um hvernig hann hafi í gegnum árin lokað á tilfinningar sem tengdust missinum.

Hann segir að nú þegar 16 ár séu liðin frá fráfalli móður sinnar hafi upplifun hans af dánardeginum verið öðruvísi. „[Þ]að sem var öðruvísi við 16. maí 2019 samanborið við 16. maí 15 ár þar á undan var að hann var ekki óbærilegur. Hann setti mig ekki úr jafnvægi og ég gerði ekki allt sem í mínu valdi stóð til þess að gleyma því hvaða dagur væri. Ég fór ekki niður á botninn.“

„Þegar mamma dó var ég ekki bara að missa mömmu, heldur var ég líka að missa minn besta vin,“ heldur Arnar Sveinn áfram.

„Við bjuggum mikið erlendis og þar af leiðandi vorum við mamma meira saman en kannski gengur og gerist. Þess vegna reyndist áfallið kannski þeim mun þyngra.“

Hann segist ekki hafa viljað hleypa vondum tilfinningum að. „Tíminn leið og ég hafði tekið ákvörðun um það að ég ætlaði að vera sterkur, jákvæður og glaður sama á hverju gengi. Þegar að þessir erfiðu dagar komu að þá fór ég enn ýktar út í gleðina og jákvæðnina. Ég ætlaði sannarlega ekki að hleypa hræðilegum tilfinningum eins og sorginni og söknuðinum að. Og ég gerði það ekki, þær fengu ekki að komast að.“

Jákvæðar tilfinningar útilokuðust þó í leiðinni. „En hægt og rólega fór það að eiga við um allar aðrar tilfinningar líka. Ég útilokaði ekki bara þessar vondu og hræðilegu tilfinningar heldur lokaði ég líka á gleðina og hamingjuna. Þetta gerði ég í tæp 15 ár. Þar til að ég lenti á vegg í byrjun árs 2018 sem ég gat ekki brotið niður.“

Arnar Sveinn ásamt móður sinniArnar Sveinn lýsir því hvernig það að loka á erfiðar tilfinningar hafi gert illt verra. „Ég leyfði mér ekki að sakna mömmu og ég leyfði mér ekki að vera sorgmæddur. En það eina sem það gerði var að það ýtti gleðinni líka í burtu, það ýtti raunverulegu hamingjunni í burtu. Allt í einu var ég farinn að gleyma mömmu, lyktinni af henni, röddinni hennar, hvernig hún hló. Allt í einu gat ég ekki lokað augunum og séð hana fyrir mér. Það er einfaldlega þannig að maður getur ekki bara valið sér það góða og ætla að sleppa því erfiða. Fyrir mér er þetta eins og alda sem kemur yfir, en aldan hún hverfur síðan og fer.“

„Þegar ég gat loksins sleppt tökunum á því að ætla alltaf að vera glaður og jákvæður og leyfði mér vera leiður eða mega sakna að þá fóru dagarnir að verða auðveldari. Ég leyfði því að koma sem kom. Ég tók á móti öldunni, viss um það að hún myndi ekki vera yfir mér að eilífu. Fyrir vikið eru skiptin sem aldan kemur yfir orðin auðveldari og aldan fer hraðar yfir,“ bætir hann við.

Arnar Sveinn segist loks hafa leyft sér að sakna móður sinnar. „Í gær þá leyfði ég mér að sakna mömmu og ég sakna hennar alveg ofboðslega. Mig langar svo að þekkja hana sem fullorðinn maður. Mig langar svo að sýna henni allt það sem ég er að gera. Mig langar svo að knúsa hana. Ég leyfði þessu öllu að koma og fara í gegnum huga minn. Gærdagurinn var erfiður, en hann var ekki óbærilegur.“

Hann segir að söknuðurinn hafi fært sig nær móður sinni.

„Í dag [17. maí] hugsa ég til gærdagsins og þykir vænt um hann. Af því að í miðjum söknuðinum sem oft getur verið alveg ofboðslega erfiður að þá tengist ég mömmu hvað mest. Þá finn ég hvað mest fyrir henni. Þá sé ég hana svo skýrt. Af því að ég leyfði mér að líða eins og mér leið að þá var 16. maí 2019 yndislegur dagur. Hann veitti mér raunverulega gleði og raunverulega hamingju.“

„Leyfum okkur að líða, hvernig sem er,“ segir Arnar Sveinn að lokum.

Nýjast