Anton er látinn - Smíðaði Argentínu steikhús frá grunni: „Hann var svo gjafmildur maður - Hann gaf allt sem hann átti og gat“

Anton er látinn - Smíðaði Argentínu steikhús frá grunni: „Hann var svo gjafmildur maður - Hann gaf allt sem hann átti og gat“

Anton Narvaéz fæddist 22. september 1948 í Valparaiso í Síle. Hann varð bráðkvaddur 9. nóvember 2019. Anton bar titilinn þúsundþjalasmiður með rentu. Hann smíðaði bátinn Farsæl GK 162 í Svíþjóð, sem tengdafaðir hans og mágur sigldu á til Íslands með búslóðina, og seldi hann þeim bátinn. Þar með settist hann að á Íslandi árið 1982 ásamt eiginkonu og þremur börnum og bjuggu þau í Hafnarfirði.

Anton Narvaéz

Fjölskyldan opnaði sinn fyrsta veitingastað, El Sombrero, á Laugavegi 73, árið 1984. Árið 1988 opnaði hann veitingastaðinn Argentínu steikhús ásamt þremur öðrum. Þann stað smíðaði hann einnig frá grunni sem og alla hina staðina, hann opnaði alls tíu veitingastaði og var með sinn ellefta og síðasta í smíðum, Mamma Mía, sem átti að opna á næstu dögum í Keflavík.

Eitt af stórum verkum hans er hjá Einhamri Seafood ehf. í Grindavík. Er það í eigu dóttur hans, Söndru, og Stefáns. Hann var mjög fjölhæfur og talaði sex tungumál. Anton hafði sterkar taugar til fæðingarlands síns Síle en hér átti hann alltaf heima.

Anton flutti frá Síle til Danmerkur þegar hann var 15 ára. Þar kynntist hann Ragnhildi Jónu Þorgeirsdóttur, f. 23.3. 1948, og þau fluttu til Íslands árið 1967 og voru gift í 20 ár.

Eftirlifandi eiginkona Antons er Olena Kobets frá Úkraínu, f. 25.3. 1957. Anton flutti ungur til Danmerkur og þar fór hann í skóla og lærði bátasmíði. Hann flutti til Íslands 1967 og fór að vinna hjá Skipasmíðastöðinni Dröfn og Blikksmiðju Hafnarfjarðar hjá Gústa blikk en hætti þar og fór að vinna hjá álverksmiðjunni ÍSAL í Straumsvík.

Börn Antons minnast hans í Morgunblaðinu í dag sem hjartahlýs þúsundþjalasmiðs sem gafst aldrei upp.

„Pabbi var algjör snillingur í höndunum, að skapa, teikna, elda, smíða, og hann tjáði allt sem hann var með vinnu. Það var hans ástríða og það gat enginn stoppað hann í því og það má segja að hann hafi verið samkvæmur sjálfum sér í því,“ segir Natalie T. Narvaés Antonsdóttir í minningargrein í Morgunblaðinu um faðir sinn. „Hann var einstaklega góður alltaf við mig og mína fjölskyldu, börnin mín minnast hans sem svo góðs afa, þótt þau sæju hann ekki oft, en þegar þau hittu hann sleppti hann þeim ekki, sýndi þeim áhuga, talaði við þau og knúsaði. Hann gaf þeim alltaf eitthvað, þótt ekki væri nema 500-kall, hann var svo gjafmildur maður. Hann gaf allt sem hann átti og gat. Ég man þegar hann ætlaði að gefa mér hjól. Það var fyrsta hjólið mitt, ég var um fimm ára. Einn daginn kom hann heim með forljótt og ryðgað hjól og ég sagði „hvað er þetta“, þá sagði hann „hjólið þitt“ og ég fór að hágráta og sagði „nei þetta er svo ljótt“. Hann huggaði mig og sagði: „Pabbi ætlar að laga það og gera það fínt.“ Það liðu ekki margir dagar þar til hann kom með fallegt og „nýtt“ hvítt hjól og ég var svo ánægð, þá hafði hann gert það algjörlega upp og það var svo fallegt. Þetta lýsir pabba svo vel, svona var hann; sá alltaf það fallega í öllu og það var ekkert sem ekki var hægt að laga og gera fínt.“

„Þetta gerðist alltof snöggt, varst að leggja lokahöndina á veitingastaðinn ykkar Kevins þegar kallið kom og einmitt þar. Þú gast ekki valið betri stað, það var nefnilega þitt yndi að vinna, þú þekktir ekki annað og þú elskaðir að hanna og innrétta. Þú sagðir við mig að þetta væri síðasti staðurinn sem þú myndir innrétta og opna, þú lofaðir mér því. Ætlaðir að fara að hafa það gott og njóta, sem þú hefðir átt að gera fyrir löngu, elsku pabbi minn, þú nefnilega gast ekki slakað á, það var þín uppáhaldsiðja að gera upp staði eða hús. Þú varst þúsundþjalasmiður og það lék allt í höndunum á þér,“ skrifar Sandra Antonsdóttir er hún minnist föður síns í Morgunblaðinu í dag.

Útför Antons fer fram í Grindavíkurkirkju í dag, 18. nóvember 2019, klukkan 14.

Nýjast