Aníta estíva harðardóttir hefur verið ráðin sem blaðamaður á hringbraut.is

Aníta Estíva Harðardóttir hefur verið ráðin sem blaðamaður á Hringbraut.is. Undanfarin tvö ár hefur Aníta Estíva starfað sem blaðamaður hjá DV bæði á vef og blaði.

Aníta Estíva var ráðin sem blaðamaður á DV árið 2017 og eftir þrjá mánuði í starfi var henni falið að taka við umsjón vefsins Bleikt.is sem þá var sér vefsíða í eigu Frjálsrar Fjölmiðlunar. Á þeim tíma tvöfaldaðist lestur Bleikt og sinnti Aníta Estíva umsjón vefsins í rúma níu mánuði eða allt þar til hann sameinaðist dægurmáladeild á vefsíðu DV.

Þá starfaði Aníta Estíva sem blaðamaður á helgarblaði DV þar til hún lét af störfum um miðjan september mánuð á þessu ári og gekk til liðs við Hringbraut.

„Það er mér mikill heiður að koma til starfa á Hringbraut. Hér er virkilega gott fjölmiðlafólk með mikla reynslu í faginu. Allir hafa brennandi áhuga á vinnunni sinni og starfsandinn í takt við það. Ég er fullviss um það að framtíðin sé björt og spennandi hér á Hringbraut og ég hlakka mikið til þess að takast á við komandi verkefni,“ segir Aníta Estíva.

Hringbraut er sjötti stærsti fjölmiðill landsins samkvæmt mælingu Gallups. Hefur Hringbraut.is verið á mikilli siglingu síðustu vikur og heimsóttu 85 þúsund manns vefinn að lágmarki einu sinni síðastliðna viku. Þannig mælist Hringbraut stærri en Stundin og nálgast Fréttablaðið.

Útgefandi og framkvæmdastjóri Hringbrautar er Guðmundur Örn Jóhannsson. Sjónvarpsstjóri er Sigmundur Ernir Rúnarsson og ritstjóri Kristjón Kormákur Guðjónsson.