Andrés: við skulum muna eftir hópnum sem talaði á ógeðslegan hátt um konur og fatlaða

„Í gær lauk þingfundi fyrr en ég hafði reiknað með. Þar græddi ég aukatíma sem ég nýtti til að bregða mér á Báramótabrennu hér annars staðar í Kvosinni. Þar eyddi Bára Halldórsdóttir upptökum sínum af fylliríisrausi þingmanna á barnum Klaustri. Persónuvernd hafði komist að þeirri niðurstöðu að með upptökunni hefði Bára brotið gegn persónuverndarlögum.“

Þannig hófst ræða Andrésar Inga undir liðnum störf þingsins í morgun. Þar gagnrýndi Andrés þingmenn Miðflokksins en hrósaði Báru hvernig hún tókst á við úrskurð Persónuverndar. Hrósaði Andrés Báru fyrir að þvæla ekki málinu í gegnum mögulegar og ómögulegar lagaflækjur né afskrifa úrskurðinn með fjarstæðukenndum samsæriskenningum líkt og þingmenn Miðflokksins. Andrés sagði:

„Reyndar er umhugsunarefni fyrir okkur sem hér sitjum hvort Persónuvernd hefði komist að annarri niðurstöðu ef Bára hefði bevís upp á vasann um að vera blaðamaður, því að það sem hún tók upp taldist klárlega fréttnæmt, en sem óbreyttur uppljóstrari naut hún ekki sérstakrar verndar. En það er útúrdúr og eitthvað sem þingið getur skoðað í betra tómi.“

Þá sagði Andrés að Bára hafi brugðist við eins og manneskja og axlað ábyrgð gjörða sinna í samræmi við úrskurð Persónuverndar.

„Þó að upprunalegu upptökurnar frá þessi örlagaríka kvöldi á Klaustri séu nú horfnar lifir minningin. Við skulum öll muna eftir hópnum sem sat á Klaustri til að tala á ógeðslegan hátt um samstarfsfólk sitt, konur, fatlað fólk o.s.frv., hóp sem brást við uppljóstrun með því að fara í stríð við uppljóstrara, hóp sem berst gegn því að siðanefnd taki mál þeirra til athugunar á öllum stigum,“ sagði Andrés og bætti við að lokum:

„Bára tók ábyrgð. Hvað með þau?“