Andlitslausir auðkýfingar kaupa ísland og þið sofið: svona eru reglurnar um jarðakaup á grænlandi og í danmörku

Jim Ratcliffe á meira en 1% af Íslandi en hann er einn ríkasti maður Bretlands. Hann keypti nýverið jörðina Brúarland 2 í Þistilfirði. Alls 384 jarðir eru að hluta eða í heild sinni í eigu aðila með lögheimili erlendis og þá eru 62 jarðir eru í fullri eigu aðila með erlent lögheimili. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir nú að alveg skýrt sé að ekki eigi að líta á land eins og hverja aðra vöru eða þjónustu. Hún segir breiðan pólitískan vilja til að takmarka jarðakaup auðmanna hér á landi. Í því samhengi má benda á að Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, sagði í fyrrasumar að ótti fólks við kaup útlendinga á jörðum hérlendis væri tilfinningalegs eðlis og óljóst væri hvað fólk óttaðist.

Eins og staðan er núna geta auðkýfingar keypt land eins og þeim listir og nýlega bárust fregnir af því að útlendingur vilji kaupa eyjuna Vigur í Djúpi og kaup erlendra auðmanna á jörðum víða um land hefur valdið áhyggjum Ríkisstjórnir síðustu ára hafa lítið aðhafst til að breyta þessu fyrirkomulagi. Sé horft til landa í kringum okkur, þá hafa bæði Danir og Grænlendingar mjög strangar reglur hvað þetta varðar. Í Bændablaðinu kom fram í fyrra að í Danmörku fái enginn að kaupa jörð nema hafa þar sjálfur fasta búsetu. Þar segir orðrétt að Danir standi fast á sínum rétti.

Þrátt fyrir að Danir séu hluti af Evrópusambandinu þá hafa þeir sett ströng skilyrði fyrir kaupum á bújörðum þar í landi. Um þetta kerfi er ritað á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar. Þar kemur fram að kaupandi þurfi að vera búsettur í Danmörku, eða hafa verið búsettur í Danmörku í samtals 5 ár, samfellt eða samanlagt á fleiri tímabilum megi hann kaupa heilsárshúsnæði án sérstaks leyfis frá danska dómsmálaráðuneytinu.  Það er skýrt tekið fram að hver sá sem kaupir bújörð í Danmörku, skal hafa fasta búsetu á viðkomandi jörð. Þannig er komið í veg fyrir að eignarhald jarða sé fært yfir á fáar hendur.

Árið 2013 setti þáverandi innanríkis­ráðherra, Ögmundur Jónasson, reglugerð sem fól í sér takmarkanir á eignarhaldi erlendra aðila á jörðum hér á landi. Hanna Birna Kristjánsdóttir, sem skömmu síðar tók við embætti innanríkisráðherra, felldi reglugerðina úr gildi.“

Grænlendingar ganga enn lengra. Hrafn Jökulsson rithöfundur og forseti Hróksins segir:

„Matadorið um eyjuna Ísland heldur áfram. „Erlendir aðilar“ eru að kaupa upp eyjuna okkar fögru. Bráðum verður ekkert eftir, og stjórnmálafólkið okkar sefur og sefur og sefur.“

Hrafn bendir á að Grænlendingar búi á landi sem sé tuttugu sinnum stærra en Ísland. Þar er reglan einföld. Hrafn segir:

„Þú getur ,,átt“ því sem nemur grunninum að húsi þínu, ekkert meira. Bændur þurfa að sýna fram á að þeir nýti sínar jarðir, fiskimenn að þeir veiði úr sameiginlegri auðlind, námufyrirtæki að þau séu að borga skynsamlega rentu. Enginn getur „átt“ neitt. Landið á sig sjálft.

Á Íslandi er villta vestrið, andlitslausir auðkýfingar, og þeirra íslensku skósveinar, eru að kaupa landið okkar, og þið sofið, okkar kjörnu fulltrúar.“