Alvarlegur kaldavatnsskortur á sauðárkróki

„Það er mikil vatnsnotkun á Sauðárkróki, sérstaklega hjá fyrirtækjum í matvælaframleiðslu í bænum og höfum við þurft að óska eftir því við fyrirtæki að þau stöðvi framleiðslu fyrr á daginn eða minnki framleiðsluna til að bregðast við þessu ástandi. Vatnsbúskapurinn í lindunum sem við erum að nýta við Sauðárkrók er ekki góður sökum lítillar úrkomu í vetur og vor.”

Þetta segir Indriði Þór Einarsson, sviðsstjóri Veitu- og framkvæmdasviðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar, í samtali við Feyki.is. Hann bætir við að sviðið sé að leita leiða við frekari vatnsöflun og að það muni skýrast á næstu dögum hvað gert verður til að bregðast við ástandinu.

Þar er greint frá því að skortur á köldu vatni á Sauðárkróki sé svo mikill að farið hefur verið fram á það við fyrirtæki sem nota mikið vatn að þau dragi úr framleiðslu eða minnki vatnsnotkun á annan hátt. Lítil úrkoma í vetur og vor er sagður orsakavaldurinn.

„Þetta er grafalvarlegt mál og mjög slæmt fyrir okkur,“ segir Hilmar Baldursson, verksmiðjustjóri Mjólkursamlags KS, í samtali við Feyki.is. Hann bætir við að það sé erfitt fyrir samlagið að draga úr framleiðslu þar sem ekki sé heppilegt að geyma mjólkina. Farið var í ýmsar aðgerðir til að reyna að draga úr vatnsnotkun en Hilmar segir að ástandið sé slæmt og ekki bjóðandi fyrirtækjum á svæðinu.

Ásmundur Baldvinsson, yfirmaður landvinnslu hjá Fisk Seafood, er sammála Hilmari. Í samtali við Feyki.is segir hann: „Við getum ekkert dregið úr vinnslu eins og er þar sem við erum með mikið hráefni sem við þurfum að klára. En við gripum til ákveðinna ráðstafana til að spara vatn.“

Ein þessara ráðstafana er sú að nú er öllu hráefni keyrt frá fiskiðjunni í þurrkhúsið í körum en venjulega er því skotið eftir rörum ásamt miklu magni af vatni. „Þetta er aukin vinna fyrir okkur og þar af leiðandi aukinn kostnaður. Við skoðum einnig aðrar leiðir,“ bætir Ásmundur við.