Slagur davíðs og bjarna hófst fyrir löngu: er þetta ástæðan fyrir illindunum?

Almannatenglarnir Andrés Jónsson og Friðjón Friðjónsson segja ágreininginn innan Sjálfstæðisflokksins snúast um eldri meðlimi sem hafi áður farið með völd og geti ekki sleppt takinu af þeim. Andrés og Friðjón ræddu hvort Sjálfstæðisflokkurinn væri að liðast sundur í Bítinu á Bylgjunni í morgun. DV.is greinir frá.

Sem kunnugt er hefur Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, farið mikinn í gagnrýni sinni í garð flokksins í Reykjavíkurbréfum blaðsins að undanförnu, þar sem hann hefur meðal annars gagnrýnt forystu flokksins, gert lítið úr 90 ára afmælisfagnaði hans og sagt að það væri kannski ekki svo slæmt ef Sjálfstæðisflokkurinn yrði að engu.

Auk þess hefur hann hrósað Miðflokknum í hástert vegna andstöðu þingmanna hans við innleiðingu þriðja orkupakkans og að sama skapi gagnrýnt þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem styðja flestir við innleiðinguna.

Þá vakti athygli að afmælisgrein Bjarna Benediktssonar í tilefni 90 ára afmælis Sjálfstæðisflokksins birtist í Fréttablaðinu en ekki í Morgunblaðinu, en löng hefð er fyrir því að formenn Sjálfstæðisflokkinn riti sínar aðsendu greinar í Morgunblaðið.

Andrés og Friðjón töldu þó hvorugur að Sjálfstæðisflokkurinn væri að klofna. „Stutta svarið er nei,“ sögðu þeir báðir.

Slagur Davíðs og Bjarna löngu byrjaður

„Þetta er kannski ágreiningur sem er að koma upp á yfirborðið milli Davíðs, sem er fyrrum sterkasti formaður flokksins, sem vill hafa áfram ítök og er ekki ánægður með sín ítök greinilega og það hefur verið óopinbert leyndarmál að hann hefur verið að pota í Bjarna reglulega. En nú finnst mér það vera komið alveg upp á yfirborðið í rauninni hversu slæmt samband milli þessa fyrrverandi formanns og núverandi formanns í rauninni er,“ sagði Andrés.

Hann telur að Davíð vilji vera nokkurs konar eilífðarformaður Sjálfstæðisflokksins. „Í grunninn skynja ég, þegar maður skoðar þetta og það sem hefur verið að gerast á síðustu árum, Davíð situr á Morgunblaðinu og vill í rauninni stýra svolítið sínum eigin flokki og vera svona smá formaður til eilífðarnóns. Honum finnst greinilega ekki nógu mikið á sig hlustað.“

„Ég held að slagurinn sé löngu byrjaður. Og Bjarni Ben virðist vera ófeimnari núna að leyfa þessum slag að koma upp á yfirborðið,“ sagði Andrés.

Friðjón telur þó að Bjarni hafi ekki sent Davíð sneið með því að birta afmælisgrein Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðinu fremur en í Morgunblaðinu. Ákvörðunin hafi einungis snúið um hagkvæmni. „Ég held að það sé óumdeilt að Fréttablaðið er með meiri lesningu. Tæp 80 prósent búa hérna á suðvestur horninu. Fréttablaðið er bara með meiri dreifingu, meiri lestur, þetta er ekki flóknara en það.“

Hann bætti því við að Morgunblaðið hafi í raun ekkert sérstakt gert fyrir Sjálfstæðismenn undanfarin ár. „Ég held að það séu ótrúlega margir Sjálfstæðismenn sem eru ekki áskrifendur að Morgunblaðinu.“

Davíð að hefna sín vegna Landsvirkjunar?

Í Náttfara á Hringbraut sem birtist um helgina er því velt upp hvort grunnurinn að illindunum milli Davíðs og Bjarna sé skipun í embætti formanns Landsvirkjunar árið 2014. Þar segir að illskeytt afstaða Davíðs gagnvart Bjarna veki furðu flestra en að hún eigi sér djúpstæðar persónulegar ástæður.

Náttfari bendir á að í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um helgina hafi Davíð fjallað um meint svik Bjarna varðandi ráðningu Más Guðmundssonar í embætti seðlabankastjóra. „Hvað er málið? Hefur Már ekki staðið sig vel í embætti? Og hvað kemur Davíð Oddssyni þessi ráðning annars við? Hann var enginn aðili þess máls og því gat enginn svikið hann vegna þessarar ráðningar.“

„Það sem kraumar undir hjá Davíð og veldur hamslausri illsku hans í garð Bjarna eru allt önnur „svik“ þegar Bjarni lauk ekki því verki að skipa Davíð í embætti formanns Landsvirkjunar árið 2014.“

Náttfari rifjar málið upp á eftirfarandi hátt: „Þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við völdum vorið 2013 byrjuðu útsendarar Davíðs að tala fyrir því við Bjarna að flokkurinn gerði nú eitthvað stórt fyrir Davíð til að bæta honum upp þá niðurlægingu sem vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms sýndu honum með því að reka hann öfugan út úr Seðlabankanum vorið 2009. Með því átti að reyna að endurreisa fyrrum formann flokksins til nokkurra valda og vonandi einhverrar virðingar.“

„Fljótlega kom á daginn að Davíð vildi verða formaður Landsvirkjunar. Hann ætlaði að sinna þeirri ábyrgðarstöðu samhliða dvöl sinni á Morgunblaðinu og hann ætlaði að vera mjög virkur stjórnarformaður og hafa skrifstofu í höfuðstöðvum Landsvirkjunar. Þetta lak út og birtist í fjölmiðlum.“

Eftir það hafi framámenn í Landsvirkjun gengið á fund Bjarna. „Þá brá svo við að Hörður Arnarson forstjóri, Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri og fleiri lykilmenn hjá Landsvirkjun gengu á fund Bjarna Benediktssonar og tilkynntu honum að yrði Davíð skipaður stjórnarformaður þá segðu þau öll störfum sínum lausum samstundis. Ljóst var að það yrði fyrirtækinu stórkostlegt áfall, meðal annars vegna samskipta við erlenda lánardrottna.“

„Bjarni gerði sér þá þegar ljóst að ógerningur væri að skipa Davíð formann Landsvirkjunar. Fyrir því væri einfaldlega ekki „pólitísk innistæða“ hjá Sjálfstæðisflokknum. Jónas Þór Guðmundsson, lögmaður í Hafnarfirði, tók þá við formennsku stjórnar Landsvirkjunar  vorið 2014 og gegnir þeirri virðingarstöðu enn.“

Að lokum segir Náttfari að þessu gleymi Davíð ekki svo glatt:

„Davíð Oddsson varð viti sínu fjær af bræði vegna þessara málaloka og hefur ekki fyrirgefið Bjarna Benediktssyni þessi “svik” ennþá. Davíð segist vera langminnugur. Það kann vel að vera. En hann er fyrst og fremst langrækinn og hefnigjarn. Í ljósi þess verður að skoða heiftarlega afstöðu hans til forystu Sjálfstæðisflokksins.“

Velur sér röksemdafærslur eftir hentisemi

Andrés sagði í Bítinu að Davíð velji það úr sögu Sjálfstæðisflokksins sem henti málflutningi hans hverju sinni. Hann hafi sjálfur slegið varnagla gegn því að hlusta of mikið á grasrót flokksins á sínum tíma og nýti núna grasrótina til að styðja við eigin málflutning og gagnrýni gegn sitjandi forystu.

Friðjón er sammála Andrési í því að Davíð virðist velja sér röksemdarfærslur eftir hentisemi. Davíð gagnrýndi til að mynda í Reykjavíkurbréfi sínu um helgina að núverandi forysta flokksins fylgdi ekki ályktunum landsfunda. Friðjón sagði það vera nokkuð algengt að forystan fylgi ekki landsfundarályktunum.

„Ég fór á minn fyrsta landsfund ‘95 og ég gagnrýndi þegar ég var í forystu ungra sjálfstæðismanna, fyrir fáránlega mörgum árum síðan, að forystan fylgdi ekki. Það á við um Davíð Oddsson, það á við um Geir H. Haarde. Mér finnst holur hljómur í gagnrýni manna sem hafa setið í þessari stöðu að halda svona fram,“ sagði Friðjón.

Vilja fá að ráða aftur

Andrés sagði að það sjáist þess merki að kynslóð Davíðs Oddssonar, sem hafði mikil völd um áratugaskeið, sé ekki tilbúin að sleppa takinu af þeim:

„Það er svo vant því að hafa völdin, það kann því svo illa að hafa þau ekki. En nú er bara komin önnur kynslóð og af hverju á hún að deila völdum með einhverjum sem eru hættir og sögðust vera stignir af sviðinu. Hún þarf að fá að gera sín mistök eða ekki. Styrmir Gunnarsson er kannski besta dæmið um þetta. Hann er alltaf að tala um að það þurfi eldra og reyndara fólk að koma að, en hann er í rauninni að segja: „Við sem réðum öllu hér á sínum tíma, viljum fá að ráða aftur“.“