Allt sem þú þarft að vita um þriðja orkupakkann

Allt sem þú þarft að vita um þriðja orkupakkann

Þriðji orkupakkinn er mikið milli tannanna á fólki þessi misserin. Af þeim sem hafa myndað sér skoðun á honum virðist fólk skiptast í tvær fylkingar. Annars vegar er fólk sem vill taka orkupakkann upp og þykir hann jafnvel til umtalsverðs gagns, og hins vegar er fólk sem vill ekki sjá upptöku orkupakkans, þar sem það telur upptökuna m.a. fela í sér afsal fullveldis Íslands og óumflýjanlega lagningu sæstrengs, svo fátt eitt sé nefnt.

Í ítarlegum leiðara á Kjarnanum fer Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans yfir staðreyndir málsins.

„Í pakk­anum felst meðal ann­ars að aðgreina skal flutn­ings­kerfi frá öðrum rekstri á orku­mark­aði. Það þýðir á manna­máli að orku­fyr­ir­tækin mega ekki lengur eiga Lands­net, það fyr­ir­tæki sem ann­ast flutn­ing raf­orku og stjórnun raf­orku­kerfa á Íslandi.

Ísland fékk reyndar und­an­þágu frá þessu ákvæði pakk­ans og landið ræður sjálft hvernig eign­ar­haldi Lands­net á að vera. Í febr­úar var til­kynnt um að viðræður standi yfir á milli rík­is­ins og Lands­virkj­unar um kaup á Lands­neti. Gangi þau áform eftir fer eign­ar­haldið frá fyr­ir­tæki að öllu leyti í eigu rík­is­ins til rík­is­ins. Gangi þau ekki eftir verður það áfram í höndum rík­is­fyr­ir­tæk­is­ins,“ skrifar Þórður Snær.

Hann bætir við að í pakk­anum felist líka að inn­leidd eru ákvæði um sjálf­stæði raf­orku­eft­ir­lits. „Innan Evr­ópu­sam­bands­ins verður það vald hjá eft­ir­lits­stofn­un­inni ACER. Fyrir Ísland munu þær afmörk­uðu heim­ildir sem ACER fær á orku­mark­aði Evr­ópu­sam­bands­ins hins vegar vera hjá Eft­ir­lits­stofnun EFTA (ES­A), þar sem fjöl­margar aðrar eft­ir­lits­heim­ildir eru nú þeg­ar. Engar vald­heim­ildir yfir íslenskum orku­málum eru fram­seldar til ACER og stofn­unin hefur engu hlut­verki að gegna hér­lendis á meðan að ekki er lagður sæstrengur hingað til lands.“

Auk þess felist í pakkanum aukin neyt­enda­vernd. „[Á]kvæði hans fela í sér auk­inn rétt neyt­enda til að fá upp­lýs­ingar og aukin rétt til að skipta um orku­sala. Þriðji orku­pakk­inn kemur einnig inn á mik­il­vægi þess að koma í veg fyrir orku­skort og inni­heldur heim­ildir til að grípa til ráð­staf­ana til að tryggja öruggt fram­boð á raf­orku fyrir almenn­ing.“

Þórður Snær fer yfir hvort einhverjir kostir fylgi upptöku þriðja orkupakkans. „Ástæðan fyrir því að Ísland tekur upp þriðja orku­pakk­ann er þátt­taka okkar í EES-­sam­starf­inu, mik­il­væg­asta efna­hags­lega sam­starfi sem við eigum í. Kjarni þess er myndun innri mark­aðar Evr­ópu með vörur og þjón­ustu og því þarf að sam­ræma reglur milli aðild­ar­ríkja.“

Hann bendir á að auk þess eigi ýmis íslensk fyr­ir­tæki sem fram­leiða og selja elds­neyti eða fram­leiða vör­ur, meðal ann­ars raf­tæki fyrir iðn­að, mikið undir því að geta selt þau á mark­aði í Evr­ópu á grund­velli laga um orku­merk­ingar og vist­hönnun vöru. „Það geta þau ekki gert nema að á Íslandi sé sam­ræmi í lögum við þann markað sem verið er að selja á. Eða þau geta auð­vitað bara flutt höf­uð­stöðvar sínar ann­að.“

„Góðar og gildar ástæður þess að inn­leiða þriðja orku­pakk­ann eru því meðal ann­ars áfram­hald­andi þátt­taka okkar í EES-­sam­starf­inu – mik­il­væg­asta við­skipta­sam­starfi Íslands­sög­unnar – , aukin neyt­enda­vernd, aukið raf­orku­ör­yggi fyrir almenn­ing og til að tryggja tæki­færi gjald­eyr­is­skap­andi tækni- og iðn­að­ar­fyr­ir­tækja á Íslandi til að selja vörur sínar á innri mark­aði Evr­ópu.“

Þórður Snær segir það fjarstæðukennt að í orkupakkanum felist einhvers konar framsal á ákvörðun um að íslensk orku­fyr­ir­tæki verði einka­vædd yfir til Evr­ópu­sam­bands­ins og bendir t.a.m. á að einungis eitt orkuframleiðslufyrirtæki á Íslandi sé í eigu einkaaðila, HS Orka. Það fyrirtæki hafi verið einkavætt af íslenskum stjórnmálamönnum, ekki andlitslausir menn frá Brussel. Nær öll orkufyrirtæki séu í opinberri eigu ríkisins eða sveitarfélaga.

Í leiðaranum fer Þórður Snær nánar í saumana á helstu álitamálum sem snúa að upptöku þriðja orkupakkans. Hann bendir t.a.m. á að Alþingi muni ákveða lagningu sæstrengs, að ekkert fullveldisafsal sé fólgið í upptökunni og að helstu andstæðingar upptöku orkupakkans séu stórnotendurnir, þar á meðal álverin, sem hagnast mest á því að raforkuverð haldist lágt.

Leiðara Þórðar Snæs má lesa í heild sinni á Kjarnanum.

Nýjast