Allt að helmingur hnúfubaka flækst í veiðarfærum

Allt að helmingur þeirra hnúfubaka sem hafa sést í hafinu umhverfis landið bera þess merki að hafa flækst í veiðarfærum. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem greint er frá í nýjasta tölublaði Fiskifrétta.

Með rannsókninni er í fyrsta sinn lagt mat á tíðni þess að hvalir flækist í veiðarfærum á Norður-Atlantshafi. Niðurstöður rannsóknarinnar voru á þá leið að á bilinu 25 til 50 prósent þeirra hnúfubaka sem sáust hér við land báru þess greinileg merki að hafa einhvern tíma flækst í veiðarfærum.

Charla Jean Basran er einn vísindamannanna sem framkvæmdi rannsóknina. Hún sagði í viðtali við Fiskifréttir síðastliðið vor að hún vonist til þess að rannsóknin leiddi til þess að færri hvalir flækist í veiðarfæri. Hún sé með þessu ekki eingöngu að hugsa um velferð hvalanna, heldur einnig hagsmuni sjómanna sem verði fyrir tjóni á veiðarfærum. „Ég vil skoða báðar hliðar málsins og láta sjónarmið sjómannanna koma fram, því þeir líta sjálfir á þetta sem ákveðið vandamál fyrir veiðarnar,“ sagði Charla í vor.