Allir tapa á gjaldþroti wow nema skiptastjórarnir sveinn andri og þorsteinn

Margir eiga um sárt að binda vegna gjaldþrots WOW-air. Starfsfólkið missir vinnuna, sama gildir um starfsmenn þjónustufyrirtækja, kröfuhafar tapa peningum og hluthafinn tapar aleigunni.

 

Ljóst er að samfélagið hefur orðið fyrir höggi. Allir tapa – nema tveir. Það eru skiptastjórarnir sem Héraðadómur Reykjavíkur skipaði í gær, þeir Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson hæstaréttarlögmenn. Skipan þeirra má líkja við að vinna stóra vinningin í Víkingalottóinu. Hér er á ferðinni langstærsta gjaldþrot Íslandssögunnar frá því að stóru bankarnir féllu í hruninu 2008. Skiptastjórar þrotabúa bankanna hafa fengið milljarða í þóknanir og náð að teygja verkefnin í mörg ár, allt upp í heilan áratug.

 

Erfitt er að fá uppgefnar nákvæmar upplýsingar um þóknanir skiptastjóra þrotabúa enda er þar um að ræða mikil feimnismál. Þó kom fram á sínum tíma eftir nokkur átök um upplýsingagjöf að skiptastjórar Glitnis banka, þau Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson, höfðu náð til sín á rúmum tveimur árum 1.6 milljarði króna í þóknanir fyrir störf sín. Það jafngildir meira en tveimur milljörðum króna á núverandi verðlagi. Vafalaust hafa skiptastjórar hinna stóru bankanna einnig náð drjúgum fjárhæðum til sín. Lítið fer hins vegar fyrir því að upplýst sé um greiðlur af þessu tagi en orðrómur er um að skiptastjórar reikni sér á bilinu 50 til 100 þúsund krónur á tímann í þóknanir. Það er því eftir miklu að sækjast!

 

Full ástæða er til að hvetja fjölmiðlamenn til að ganga eftir því að fá svör við því hvernig Héraðsdómur Reykjavíkur velur fólk í verkefni af þessu tagi,hvaða þóknanir þeir fá og hvernig eftirliti með skiptastjórum er háttað. Þetta varðar marga. Fjöldi kröfuhafa er mikill og þeim kemur öllum við hvernig staðið er að rekstri þrotabúa.

 

Nú reynir á rannsóknarblaðamennskuna.